Í fyrradag fjallaði Vefþjóðviljinn um „fjölmiðla“-grein Gauta Kristmannssonar sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins síðastliðinn laugardag, og harða gagnrýni Gauta á Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins. En Bjarni var ekki sá eini sem fékk sendingar, því í Gauti tók einnig upp annan þráð, sem spunarokkar Samfylkingarinnar hafa reynt að snúa undanfarið. Gauti skrifaði
Það voru þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, og fyrrverandi seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, sem undirrituðu skuldbindingar fyrir Íslands hönd að gangast undir þær kvaðir sem Icesave hefur síðan valdið. |
Hér er mjög reynt að leiða lesendur afvega. Seðlabankastjóri skuldbatt engan til að gangast undir Icesave. Þegar þáverandi ríkisstjórn ákvað að Ísland skyldi ganga til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn voru ýmis atriði tiltekin í yfirlýsingu hennar. Sum snertu ríkisfjármálin en svo var einnig kveðið á um að seðlabankinn skyldi eiga tiltekið samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þar sem seðlabankinn er sjálfstæð stofnun skrifaði seðlabankastjóri því undir yfirlýsinguna ásamt ráðherra. Í því fólst að sjálfsögðu ekki að seðlabankinn hefði lýst nokkurri skoðun á öðru en því sem undir hann heyrir. Þetta hefur auðvitað verið útskýrt opinberlega, en engu að síður virðist þurfa að endurtaka þær stundum.
Þetta skilst kannski betur ef búið er til lítið dæmi. Ef í samkomulaginu við alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefði einnig falist að hugsanleg málaferli vegna neyðarlaganna kæmust hratt á dagskrá Hæstaréttar, þá hefði forseti Hæstaréttar einnig skrifað undir yfirlýsinguna. Ef einhver hefði nýtt sér það, til að koma ári seinna og segja: aha, forseti Hæstaréttar skuldbatt okkur til að borga Icesave, þá hefði það verið slíkur misskilningur að sennilega væri um að ræða vísvitandi fals.
Skýrasta dæmið um fals í þessu sambandi var þegar „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins brást við af fítonskrafti þegar Davíð Oddsson lýsti í blaðaviðtali í sumar sjónarmiðum sínum vegna Icesave-frumvarpsins. Strax var gerð löng „frétt“, þar sem Björn Malmquist spann þennan sama vef; Davíð væri tvísaga þar sem hann hefði sem seðlabankastjóri skrifað undir tilkynningu um samstarf við alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það sem gerir þetta atvik alvarlegra er, að í umræddu viðtali, sem þó var ástæða fréttarinnar, var málið útskýrt, án þess að Björn Malmquist minntist einu orði á það, í þeirri löngu „frétt“ sem hann gerði. Virðist því sem enginn misskilningur hafi ráðið för, heldur hrein og klár gagnaðgerð fréttastofunnar vegna viðtalsins, og ekki í fyrsta skipti. Vaktstjóri þetta kvöld var Margrét Marteinsdóttir. Vafalaust þykir bæði henni og Birni Malmquist að fólk í ábyrgðarstöðum undanfarið ár sé ekki nógu duglegt að biðjast afsökunar, iðrast og „axla ábyrgð“.
Kannski upplýsir Björn Malmquist einhvern daginn hvaðan hann hafi fengið hugmyndina að „fréttinni“, hver hafi verið svo vinsamlegur að etja honum á þetta forað.