G ylfi Magnússon var í kastljósi Ríkissjónvarpsins í fyrrakvöldi. Sagði Gylfi réttilega að ríkissjóður stæði svo illa að íslenska ríkið mætti ekki við fleiri reikningum.
Gaman hefði hins vegar verið ef einhver hefði nú einhvern tíma spurt Gylfa Magnússon hvort hann standi að þeirri ákvörðun stjórnvalda, ríkis og Reykjavíkurborgar, að eyða rúmlega 14 milljörðum króna til viðbótar af opinberu fé til byggingar tónlistarhúss, en sú furðuframkvæmd virðist eiga að halda áfram óháð öllu sem gerist í veröldinni í kringum hana.
Næsta skref í þeirri framkvæmd er svo að fá hundruð kínverska verkamanna til að vinna sérhæfða vinnu við fína glerið utan á byggingunni. Ekki má nú spara það við sig og svo er þetta atvinnuskapandi fyrir Kínverja og þar er nú fleiri munna að metta en hér.
Hvernig stendur á því að svokallaðir fréttamenn krefja ráðamenn aldrei svara um kostnaðinn við að halda tónlistarhússmeinlokunni til streitu – og spyrja aldrei hvers vegna ekki sé numið staðar? Tal ráðamanna um að dýrara væri að hætta við en halda áfram, er óskiljanleg vitleysa.
L ítið dæmi um opinbera umræðu á Íslandi gafst í fréttum í fyrradag þegar sagt var frá aðgerðum ýmissa Seyðfirðinga til stuðnings því að indverskri konu verði ekki vísað úr landi. Auðvitað er mannlegt og fallegt af Seyðfirðingunum að finna til með konunni og vilja gjarnan að hún fái að vera á Íslandi. Ekki hefði Vefþjóðviljinn neina sérstaka ánægju af því ef henni yrði vísað á dyr. En fréttamenn verða að líta á málin í réttu samhengi. Spurningin sem málið ætti að snúast um er einfaldlega: Hvaða reglur, ef einhverjar, eiga að gilda um komu, dvöl og búsetu útlendinga hér? Eitt svar við henni gæti verið að ákveða að öllum Indverjum, sem hingað vildu koma og setjast að, væri það heimilt. Svo má auðvitað hugsa sér einhver önnur svör. En málin geta ekki oltið á því hvernig Seyðfirðingum líkar við hvern og einn. Hvað með þann vesalings Indverja sem ekki hefði fallið Seyðfirðingum í geð?
En það er ekki nóg, ef menn vilja reynast útlendingum vel, að hleypa þeim til Vesturlanda. Það má þá ekki loka augunum fyrir því ef þeir búa við kúgun og jafnvel ofbeldi þegar til Vesturlanda er komið. Því miður er það svo, að sumir nýbúar úr framandi menningu eiga ekki sjö dagana sæla á Vesturlöndum heldur sæta skefjalausri kúgun og ofsóknum þeirra sem næst þeim standa. Um það er fjallað í bókinni Dýrmætast er frelsið sem fæst í Bóksölu Andríkis, og eru þar sagðar óhugnanlegar sögur af kúgun og ofbeldi sem viðgengst í næstu nágrannalöndum Íslands, ekki síst gagnvart konum. Og einhverra hluta vegna þá mega norrænu jafnaðarmannastjórnirnar ekki heyra það nefnt að þarna geti pottur verið brotinn og í þessum málum eru femínistafélög algerlega áhugalaus um stórfellt ofbeldi á raunverulega undirokuðum konum.
Það þykir víst sýna umburðarlyndi og fordómaleysi að loka augunum fyrir þessari skelfingu sem víða viðgengst gagnvart konum og ungu fólki. Þeim, sem benda á hana, er svo mætt með hugsunarlausum upphrópunum um „fordóma“, „skilningsleysi“ og „ólíka menningu“.
Dýrmætast er frelsið fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar 1990 krónur. Við sendingu til framandi menningarheima leggst á 600 króna sendingargjald.