E kki reyndust íslenskir fréttamenn hafa mikinn áhuga á að rifja upp nokkurra mánaða gamlar klækjastjórnmála-ræður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur eða annarra Samfylkingarmanna, eins og Vefþjóðviljinn hafði auðvitað búist við í framhaldi af hinum óvæntu meirihlutaskiptum í bæjarstjórn Grindavíkur.
En kannski breytist þetta núna, þegar aðrar annir fréttamanna minnka. Í dag verður fyrsti dagurinn í langan tíma sem ekki verða fréttaútsendingar frá hundraðmanna mótmælastöðu fyrir utan dómsmálaráðuneytið. En þetta óvænta fréttaleysi er ekki vegna þess að fréttamenn hafi misst hinn stöðuga áhuga sinn, heldur einfaldlega af því að í dag verður ekki fundur.
Fimm sinnum á síðustu sex dögum hefur þar verið haldinn mótmælafundur og jafnoft hafa ákafir fréttamenn ríkisfjölmiðlanna mætt og sent út, endursagt ræður og rætt við fundarmenn. Skemmtilegasta fréttin var síðastliðinn laugardag. Þá snerist allt fréttaviðtal Ríkisútvarpsins við mótmælandann um að fá að vita hvort mótmælum yrði ekki örugglega haldið áfram eftir helgi og viðtalinu lauk fréttamaðurinn á orðunum „gangi ykkur vel“.
Það er ekkert að því að menn komi saman og mótmæli – eða berjist fyrir einhverjum pólitískum hugðarefnum sínum, svo lengi sem menn fara að lögum og brjóta ekki réttindi annarra. En ákafi sumra fréttamanna við að láta eins og hver einustu mótmæli, hversu oft sem þau eru endurtekin, séu alltaf jafn fréttnæm, er stórmerkilegur. En koma fáum á óvart.