Mánudagur 5. maí 2008

126. tbl. 12. árg.

U m þær mundir sem Patrick Moore lauk doktorsprófi í vistfræði árið 1971 tók hann þátt í stofnun Greenpeace. Í grein í The Wall Street Journal á degi jarðar 22. apríl síðastliðinn segir hann frá ástæðum þess að hann yfirgaf samtökin árið 1986. Hann segir að í byrjun hafi Greenpeace reynt að hafa vísindi að leiðarljósi í starfi sínu en það hafi breyst.

Eftir sex ár í starfi sem einn af fimm framkvæmdastjórum Greenpeace veitti ég því athygli að enginn meðstjórnenda minna hafði menntun í raunvísindum. Þeir voru annað hvort pólitískir baráttumenn eða athafnamenn í umhverfismálum. Vísindaleg hlutlægni vék fyrir pólitískum markmiðum í starfi samtakanna og ég átti ekki annan kost en að yfirgefa samtökin árið 1986. Það sem réð á endanum úrslitum var stuðningur Greenpeace við bann við notkun klórs. Vísindin hafa sýnt að íblöndun klórs í drykkjarvatn er eitt stærsta skrefið sem tekið hefur verið til að bæta heilsu almennings. Íblöndunin stöðvaði svo að segja útbreiðslu sjúkdóma eins og kóleru með drykkjarvatni.

Moore segir Greenpeace og fleiri umhverfisverndarsamtök hafa stutt klórbannið í yfir 20 ár þrátt fyrir að vísindin hafi ekki leitt neina hættu í ljós við íblöndun klórs í drykkjarvatn. Kostirnir blasi einnig við en umhverfissinnar þráist við. Hann segir það sorglegt hvernig Greenpeace hafi orðið að öfgasamtökum sem stjórnuðust af pólitík.

Nýjasta grýla grænfriðunga er svonefnt þalöt sem notuð eru sem mýkingarefni í plast. Moore segir að það hjálpi Greenpeace í áróðrinum ef efni bera undarlega heiti sem erfitt er að bera fram. Hann segir algeng þalöt eins og diisononyl þalöt (DINP) hafa verið rannsökuð af mörgum opinberum stofnunum og óháðum rannsóknarstofum. Enginn hafi getað sýnt fram á skaðsemi þess. Þrátt fyrir að þessi þekking á efninu liggi fyrir haldi grænfriðungar baráttunni gegn þalötunum áfram og nú hafi ýmsir stórmarkaðir gefist upp á látunum og bjóði aðeins leikföng og aðrar plastvörur án þalata. Í staðinn eru hins vegar komin önnur efni sem ekki hafi verið könnuð jafn vel í þalötin. Evrópusambandið hljóp einfaldlega til að bannaði þalöt í leikföngum áður en nokkurt mat á hættunni af þeim lá fyrir.