Ég var svo sannfærð um það þegar ég fór að fara í gegnum Evrópumálin að við værum að taka ranga afstöðu í Kvennalistanum þegar Kvennalistinn vildi setja sig upp á móti samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Ég byrjaði þarna. Ég byrjaði með þá afstöðu. Svo fór ég í gegnum allt þetta ferli og var svo heppin að sitja í í utanríkismálanefnd og kynna mér þetta. Ég var algjörlega sannfærð um að þetta var röng afstaða. Ég held að það efist enginn um það í dag að ég hafði rétt fyrir mér hvað þetta varðar. Er það? Ég heyri engan segja að við hefðum ekki átt að gera samninginn um evrópska efnahagssvæðið. |
– Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi í þættinum Maður á mann á Skjá 1 16. nóvember 2003. |
Íaðdraganda þingkosninga í vor máttu menn hvað eftir annað sitja undir því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem á sínum tíma var aðalræðumaður á stofnfundi Samtaka gegn EES samningum, mærði samninginn af miklu kappi. „Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu, hún hefur skilað okkur miklum ávinningi. Það frelsi og frjálsræði sem að því fylgdi í efnahagsmálum og atvinnumálum, þær réttarbætur sem því fylgdi á mörgum sviðum, hefur skilað okkur miklum ávinningi“, var meðal þess sem hún hafði að segja um þennan samninginn sem flokkurinn hennar barðist gegn.
Þessar ástarjátningar Ingibjargar til EES samningsins koma ekki aðeins á óvart vegna þess að Kvennalistinn var á móti samningnum heldur vegna þess að Ingibjörg fékk færi á því í atkvæðagreiðslu á Alþingi að sýna að hún væri „algjörlega sannfærð“ um að Kvennalistinn væri að taka ranga afstöðu. Hún fékk færi á styðja samninginn sem „hefur skilað okkur miklum ávinningi“ með þeim „réttabótum“ og „frelsi og frjálsræði“ sem honum fylgdu.
Þótt Ingibjörg Sólrún láti nú eins og án hennar liðsinnis væri Ísland ekki aðili að EES greiddi hún samningnum ekki atkvæði sitt þegar hann var borinn undir Alþingi. „Algjörlega sannfærð“ sat hún hjá í atkvæðagreiðslunni.
ÍÍgærkvöldi sagði Ríkisútvarpið svohljóðandi frétt: „Fimm af 7 sveitarstjórnarmönnum í Dalabyggð samþykktu í kvöld vantraust á Guðrúnu Jónu Gunnarsdóttur, fyrrverandi oddvita. 2 fulltrúar greiddu atkvæði gegn vantrauststillögunni, Guðrún Jóna sjálf og Snæbjörg Bjartmarsdóttir. Þær Guðrún Jóna og Snæbjörg voru báðar kjörnar í sveitarstjórnina af L-lista Samstöðu, en flutningsmaður tillögunnar var Þorsteinn Jónsson oddviti, af sama lista.“ – Í tillögunni fólst samkvæmt fréttinni að „að Guðrúnu Jónu væri vikið úr öllum nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins“. Vefþjóðviljanum finnst rétt að árétta að þau Guðrún Jóna og Þorsteinn voru kjörin í sveitarstjórnina af L-lista Samstöðu.