I ðnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp um orku- og auðlindamál. Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins gerði athugasemdir við frumvarpið í sjónvarpsfréttum í gær og á vef hans má lesa greinargóðan rökstuðning gegn ýmsum ákvæðum frumvarpsins.
Eitt af helstu markmiðum frumvarpsins virðist að tryggja að sú þjóðnýting sem átt hefur sér stað á orkuauðlindum landsins standi óhögguð enda mælir frumvarpið fyrir um bann við varanlegu framsali hins opinbera á auðlindum sem eru nú þegar eða munu komast í eigu þess.
Orkufyrirtæki og auðlindir geta annars vegar verið í eigu einstaklinga og félaga þeirra og hins vegar í eigu hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Í fyrra tilvikinu hafa viðskiptavinir einkafyrirtækjanna hafi talsverð áhrif á stjórn þeirra með því að beina viðskiptum til þeirra eða ekki. Í síðara tilvikinu stýra pólitíkusar og fulltrúar þeirra fyrirtækjunum. Möguleikar almennings til að hafa áhrif á stjórn opinberra fyrirtækja liggja í kosningum á fjögurra ára fresti. Áhrif hvers kjósanda eru lítil eins og menn vita. Skipulagðir hagsmunahópar hafa til að mynda miklu meiri áhrif á störf stjórnmálamanna en kjósendur.
Þegar kratar verja eign hins opinbera á öllu mögulegu segja þeir jafnan að þeir vilji að hlutirnir séu í „eign almennings“ eða „þjóðareign“. Þetta sögðu þeir til að mynda þegar þeir töfðu einkavæðingu ríkisbankanna um mörg ár. En allt þetta tal um að hlutir í eign hins opinbera séu í „eigu almennings“ er í besta falli merkingarlaust. Það er lítið gagn að eign sem menn hafa ekkert um að segja nema á fjögurra ára fresti og þá er undir hælinn lagt hvort menn hafi nokkur áhrif.
Frumvarp iðnaðarráðherra er að þessu leyti tilraun til að trygga að völd færist ekki frá stjórnmálamönnum og út á markaðinn. Að segja þá tilraun í þágu almennings er ósvífið.