Í
Flóttaleiðin frá sorpföndrinu liggur um holræsin. |
slendingar munu líklega ekki komast alveg hjá því að taka þátt í einu helsta friðþægingarsporti Vesturlandabúa um þessar mundir, endurvinnslunni. Þetta sport veitir ekki aðeins vellíðan að því leyti að menn telja sér trú um að þeir séu að gera umhverfinu gott. Það veitir hinum ríka borgarbúa líka kærkomið tækifæri til að snobba aðeins niður á við þegar hann föndrar með ruslið sitt. Vertu þinn eigin ruslakarl. Maður er nú ekki of góður til þess.
Á næstunni mun verða þrengt að þeim sem fara með allt sitt sorp í eina tunnu og ætlast í einfeldni sinni til að því sé ekið í burt í einu lagi og urðað úr sjónmáli. Það verður ekki liðið. Í stað þess að fara eina ferð með allt gumsið verður þrýst á um að hroðinn sé lesinn í sundur á heimilum manna og svo ekið með hvern hluta út og suður og jafnvel keypt undir suma þeirra skipsrúm til annarra landa.
Íslenskar sveitarstjórnir munu reyna að troða þessu rituali upp á landsmenn af auknu afli á næstunni. Enginn sveitarstjórnarmaður mun þora að standa upp og segja það sem satt er að það liggi bara ekkert fyrir um að endurvinnsla á hinum ýmsu hlutum sé umhverfisvæn. Hvað er til að mynda umhverfisvænt við það að sóa plássi í íbúðum landsmanna undir gömul dagblöð þar til bunkinn er orðinn nógu stór til að sóa bílferð í að aka með hann út á gámastöð sem sjálf er sóun á verðmætu landi innan sveitarfélagsins? Þar stendur svo gámur sem trukkur var látinn sóa eldsneyti í að flytja á staðinn og einnig að sækja til að fara með í blöðin í böggun. Svo fara þau aftur í gám sem er fluttur að skipshlið þar sem hann fer í sóunarferð út fyrir íslenska landhelgi.
Íslenskir sveitarstjórnarmenn munu einfaldlega gleypa það hrátt að allt sem kennt er við endurvinnslu sé gott.
En um leið og þeir reyna að loka ruslatunnum landsmanna fyrir óflokkuðu sorpi mun Vefþjóðviljinn íhuga að tryggja sér umboð fyrir sorpkvarnir í eldhúsvaska. Með slíku tæki má senda stóran hluta heimilissorpsins niður í holræsakerfið í stað þess að taka þátt í flokkunarföndrinu. Flestir hafa annað og betra við tímann að gera en að velta sorpi fram og til baka um heimilið og bæinn. Þeir munu nýta sér þessa leið.
Það mun raunar þegar vera vaxandi eftirspurn eftir þessum undratækjum hér á landi, ekki síst í nýbyggingunum.
Þegar kvarnirnar verða komnar á fullt geta umhverfissinnar þakkað sér að hafa bætt lífsskilyrði íslensku holræsarottunnar verulega.