Miðvikudagur 4. júlí 2007

185. tbl. 11. árg.

J óhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra tók í gær lítið skref en í rétta átt. Hún lækkaði lánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80%, sem vonandi er aðeins fyrsta skrefið af níu jafn stórum á þeirri leið að leggja niður núverandi starfsemi þessa opinbera lánasjóðs. Eða öllu heldur koma henni úr höndum starfsmanna ríkisins. En þó að ástæða sé til að vona að Jóhanna taki fleiri skref í þessa átt eru líkurnar á því ekki miklar. Jóhanna á sér nefnilega nokkra fortíð þegar kemur að Íbúðalánasjóði og hefur raunar nýlega verið með heitstrengingar um áframhaldandi starfsemi hans.

Í ljósi baráttu Jóhönnu í gegnum tíðina sætir raunar furðu að hún skuli nú vilja lækka lánshlutfall, því að þegar framsóknarmönnum tókst fyrir um þremur árum að knýja í gegn hækkun þessa hlutfalls þá studdi hún það heils hugar – og vildi raunar ganga lengra en gert var. Í ræðu sem hún flutti á Alþingi í nóvember árið 2004 sagði hún orðrétt:

Ég fagna því að frumvarp er komið fram þar sem meginmarkmiðið er að lánshlutfall verði hækkað í 90%.

og núverandi félagsmálaráðherra sagði enn fremur:

Í þessu frumvarpi er farið mjög varlega í sakirnar eins og varðandi þak á hámarksfjárhæð. Nokkuð óljóst er í frumvarpinu að mér sýnist hvort 90% þakið eigi að taka gildi í áföngum eða hækkun á lánshlutfalli eigi að taka gildi að fullu um næstu áramót, en í orðum hæstv. ráðherra áðan mátti heyra að 90% lánshlutfallið eigi að taka gildi um áramót og ber að fagna því að menn séu ekki að teygja lopann í því efni, nógu erfiðlega mun Íbúðalánasjóði vegna í því að halda í hlut sinn í fasteignaviðskiptunum sem að stórum hluta eru nú komin yfir til bankanna.

Sinnaskipti félagsmálaráðherra eru afar athyglisverð og óskandi er að þau verði fleiri. Hún mætti að ósekju velta fyrir sér grundvelli Íbúðalánasjóðs og hvort ekki er kominn tími til að endurskoða tilvist hans. Í þessu sambandi er ástæða til að vitna til álits Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í síðasta mánuði þar sem hann segir að endurskoðun á Íbúðalánasjóði sé „sérstaklega brýn“. Hann bendir á að starfsemi Íbúðalánasjóðs valdi því að stýrivextir haldist háir og komi sér því illa fyrir þau fyrirtæki sem ekki geti tekið erlend lán og hafi því neikvæð áhrif á hagvöxt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvetur til þess að þegar í stað verði hámarkslán og lánshlutföll lækkuð. Félagsmálaráðherra hefur nú þegar komið til móts við þessi sjónarmið en á eftir að fara eftir mikilvægustu ráðleggingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem er að ríkið losi sig við Íbúðalánasjóð. Fróðlegt verður að sjá hvort sinnaskipti Jóhönnu í málefnum Íbúðalánasjóðs verða alger eða hvort ákvörðunin í gær var aðeins jákvætt hliðarskref á annars ógæfulegri ferð hennar í húsnæðismálum.