Föstudagur 19. janúar 2007

19. tbl. 11. árg.

F lemming Rose menningarritstjóri Jyllands-Posten og Björn Lomborg prófessor við Viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar rituðu grein í The Wall Street Journal í gær í tilefni að heimsókn Al Gore fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna til Danmerkur. Gore fer nú sem kunnugt er um heiminn og kynnir það viðhorf sitt að maðurinn verði að breyta algerlega um lífsstíl vegna hættunnar sem stafar af hlýnandi loftslagi. Jyllands-Posten þótt alveg upplagt að fá Gore til viðtals og til að gera viðtalið áhugavert var ákveðið að kalla einnig á Björn Lomborg sem sett hefur fram andstæð sjónarmið. Gore samþykkti að viðtalið færi fram fyrir nokkrum mánuðum og í fyrradag sagði fulltrúi hans að það væri frábært að Gore og Lomborg hittust með þessum hætti. Skömmu síðar hafði fulltrúinn samband á ný og vildi nú útiloka Lomborg frá viðtalinu því hann hefði gagnrýnt boðskap Gore um gróðurhúsaáhrifin. Fulltrúinn sagði jafnframt að Gore vildi aðeins ræða efni bókar sinnar og kvikmyndar og aðeins við blaðamann. Jyllands-Posten féllst á þetta. En stundu síðar barst tölvupóstur frá fulltrúanum þess efnis að Gore væri hættur við að mæta í viðtalið.

Danirnir vita ekki af hverju Gore lagði ekki í viðtalið.

Flemming og Lomborg benda hins vegar á að samkvæmt loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna yrði meðalmaðurinn 30% fátækari árið 2100 ef ráðum Gore um loftslagsmál yrði fylgt. Menn yrðu því ekki eins vel í stakk búnir til að takast á við ýmis önnur vandamál. Hins vegar megi draga smátt og smátt úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda á þessari öld. Þannig geti meðalmaðurinn orðið mun ríkari við lok hennar og með aukna burði til að takast á við ýmis brýn vandamál en vissulega í hlýrra loftslagi.

Danirnir benda einnig á að Gore sé tíðrætt um 20 feta hækkun sjávarmáls. Þetta segja þeir vera fjarstæðu því loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna spái hækkun um 1 fet á þessari öld og undanfarin 150 ár hafi sjávarmál hækkað um 1 fet. Þeir botna ekkert í þessum tvítugföldu ýkjum Gore.

Þeir segja það jafnframt rangt sem Gore haldi fram að að malaría hafi skotið sér niður í Nairóbí í Kenýa að undanförnu vegna hlýnandi loftslags. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er Nairóbí laus við malaríu um þessar mundir en á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar fór malaría reglulega um borgina eins og eldur í sinu. Þá var kaldara en nú.

Þeir segja Gore gera mikið úr hlýnun á Suðurskautslandinu en benda á að þar eigi hann aðeins við 2% álfunnar því 98% hennar hafi kólnað á síðustu 35 árum. Gore segir ísinn vera minnka á Norðurskautinu en gleymir alltaf að nefna spár um aukinn ís á Suðurskautinu.

Gore talar mikið um hærri hiti kosti margt fólk lífið. Hann nefnir sérstaklega að hitabylgja í Evrópu árið 2003 hafi kostað 35 þúsund manns lífið. Hann getur þess hins vegar aldrei að minni kuldi mun forða fleirum frá dauða. Í Bretlandi er áætlað að tífalt fleiri bjargist vegna minni kulda en látist vegna hærri hita.

Í lok greinarinnar segja Danirnir að það sé mikilvægt að ræða þessi mál opinberlega og þeir séu tilbúnir til að taka viðtalið við Gore hvenær og hvar sem er.