F ram á síðustu ár var Morgunblaðið einn helsti málsvari borgaralegra gilda hér á landi. Almennt má segja að lýðræðisríki og frjáls markaður hafi átt nokkuð öruggan stuðning vísan í Morgunblaðinu og blaðið á sinn þátt í því að Íslendingar urðu ekki kommúnismanum að bráð eins og mörg ríki Evrópu. Fyrir þetta er sjálfsagt að þakka og vegna þessarar sögu hefur Morgunblaðið notið velvilja allra þeirra sem vilja hafa borgaraleg gildi í hávegum en eru minna fyrir hvers kyns félagshyggju. Á síðustu árum hefur Morgunblaðið hins vegar hörfað hratt frá varðstöðu sinni um hin borgaralegu gildi og er þess í stað orðið afar upptekið af því að þóknast félagshyggjuöflunum og hinum pólitíska rétttrúnaði. Nú orðið líður varla sá dagur að ekki megi finna merki þessa viðsnúnings í blaðinu, ef ekki í ritstjórnarefni þá í fréttaskrifum blaðsins. Um leið minnkar vægi Morgunblaðsins hratt á íslenskum dagblaðamarkaði.
Ef til vill má líta á það sem lokahnykkinn í stefnubreytingu Morgunblaðsins og undanlátsseminni við síkvartandi vinstri menn sem náð hafa tökum á ritstjórn þess, að blaðið kaus í gær að láta lokið þeirri áratugalöngu hefð að formaður Sjálfstæðisflokksins ritaði grein í miðopnu blaðsins við áramót. Það er auðvitað ákveðið afrek hjá vinstri mönnum innan blaðs og ekki síður utan, að hafa á nokkrum árum tekist að gera úr ágætu fréttablaði, sem aðhylltist borgaraleg gildi og hélt í heiðri ýmsar hefðir, fremur ótrúverðugt fréttablað sem hefur helst þá stefnu að elta pólitíska rétthugsun og ýta undir félagshyggju. En þeir sem lyppuðust niður fyrir sífri vinstri manna og ímynduðum og misskildum tíðaranda, þeir hafa ekkert afrek unnið.
Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins ritaði grein í Fréttablaðið í tilefni áramótanna og ástæða er til að vekja athygli á nokkrum orðum úr þeirri grein: „Síðastliðin tæp sextán ár hefur áhersla verið lögð á að lækka skatta, einfalda ríkisreksturinn og auka frelsi og samkeppni á öllum sviðum. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við höldum einbeitt áfram þennan veg til árangurs. Með því að einfalda regluverk atvinnulífsins enn frekar og halda áfram að lækka opinberar álögur sköpum við skilyrði fyrir kröftugu atvinnulífi. Þannig styðjum við best frumkvöðla og nýsköpun um leið og við eflum þá atvinnustarfsemi sem fyrir er.“
Óhætt er að taka undir með Geir í þessu efni. Það er ekki orðum aukið að gríðarlega mikilvægt er að halda áfram að lækka skatta og með því að einfalda regluverkið eru sköpuð skilyrði fyrir kröftugu atvinnulífi. Þetta er einmitt það sem ríkisvaldið á að gera, skapa almenn góð skilyrði fyrir einstaklinga og atvinnulíf. Ánægjulegt er að forsætisráðherra skuli sýna þessu slíkan skilning. Af lestri áramótagreina annarra formanna í Fréttablaðinu má fullyrða að þeir hafa ekki allir þennan skilning á hlutverki ríkisvaldsins.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar er við sama heygarðshornið og áður í áramótagrein sinni og telur einu leiðina fyrir Ísland vera að ganga skrifstofubákninu í Brussel á hönd og afhenda erlendum embættismönnum fullveldi landsins. Þetta er þægileg leið fyrir stjórnmálamann sem hefur engar sjálfstæðar skoðanir eða hugmyndir um hvaða leið eigi að fara í einstökum málum. Fyrir þann sem þykist nú enn á ný vera tilbúinn til að takast á hendur stjórn þjóðarskútunnar svo kölluðu er þetta hins vegar heldur aumkunarvert.
Það er ekki síður forvitnilegt að lesa umfjöllun Ingibjargar um hagstjórnina. Hún telur hagstjórnarmistök hafa valdið miklum sveiflum í efnahagslífinu og að sumu leyti má taka undir það. Ríkið hefði til dæmis mátt vera aðhaldssamara og það hefði mátt halda aftur af húsnæðislánabankanum sínum í stað þess að leyfa honum að þenja sig út. En Ingibjörg nefnir þetta ekki. Hún vill þvert á móti auka útgjöldin enn hraðar en hingað til hefur verið gert og segir svo dæmi sé tekið að ný ríkisstjórn þurfi að „hefja stórsókn í vegamálum“. Þeir sem muna hver reynslan er af Ingibjörgu við stjórnvölinn hjá hinu opinbera vita svo sem vel hvaða leið hún mundi fara fengi hún að ráða. Hún mundi hækka skatta í stað þess að lækka þá. Hún mundi auka skuldir í stað þess að greiða þær niður. Og hún mundi auka útgjöldin meira en nokkrum manni hefur áður dottið í hug. Það er umhugsunarvert að stjórnmálamaður með slíkan feril skuli telja ástæðu til að tjá sig um hagstjórn – að ekki sé talað um hagstjórnarmistök.
Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur Framsókn „augljóslega ekki í ástandi til að stjórna einu né neinu“. Sjálfstæðisflokkurinn er þó sýnu verri að áliti Steingríms. Löng vera hans í mörgum ráðuneytum „liggur eins og mara á viðkomandi málaflokkum“, segir Steingrímur og telur að stjórnarráðið í heild þurfi að „frelsa undan Sjálfstæðisflokknum“. Það þarf enginn að velkjast í vafa um hvers konar stjórnarmynstur Steingrímur vill og hvers konar mynstri hann hafnar með öllu. Fái hann styrk til að ráða næstu ríkisstjórn verður hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn í þeirri ríkisstjórn, sem þýðir með öðrum orðum að þar verða Vinstri grænir, Samfylkingin og Frjálslyndir. Síðast þegar flokkarnir sem mynda fyrrnefndu flokkana tvo sátu saman í stjórnarráðinu voru skattar hækkaðir linnulaust undir forystu þáverandi formanns Steingríms, Ólafs Ragnars Grímssonar, sem þá var í fjármálaráðuneytinu. Afleiðingarnar voru skertur kaupmáttur, sérstaklega hjá þeim sem höfðu lægstar tekjurnar, og lífskjör landsmanna versnuðu til muna. Steingrímur býður nú upp á sömu súpu og síðast þegar hann var ráðherra og kallar súpuna „velferðarstjórn“. Spennandi verður að sjá hvernig öfugmælavísan fer í kjósendur í vor.
Guðjón A. Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins birtir í áramótagrein sinni langan óskalista yfir allt það sem hann vill gera fyrir alla, en láðist því miður að geta þess hvað óskalistinn mundi kosta. En slíkir smámunir breyta engu fyrir Frjálslynda flokkinn, því eins og menn muna þá hafði sá flokkur ekki hugmynd um hvað tillögur hans í skattamálum fyrir síðustu kosningar mundu þýða í minni tekjur fyrir ríkið. Taldi flokkurinn að tillögurnar mundu aðeins lækka tekjur ríkissjóðs um brot af því sem raunin var. Þegar á það var bent breytti það þó engu um stefnuna. En það er svo sem ekki við því að búast að Frjálslyndi flokkurinn hafi rökstudda stefnu. Flokkurinn var stofnaður af hefndarhug og átti aldrei að þjóna öðrum tilgangi en þeim að koma ákveðnum einstaklingi og síðar einstaklingum inn á þing. Nú beita þeir sem komist hafa í forystu flokksins öllum ráðum til að halda í völdin. Enginn skyldi búast við neinu vitrænu framlagi á sviði stjórnmálanna af þessum flokki.
Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins ritar nú um áramótin sína fyrstu grein í Fréttablaðið sem slíkur. Hætt er við að ef hann og raunveruleikinn fara ekki nálgast hvor annan verði þetta um leið hans síðasta grein af þessu tagi, en hann segir meðal annars að „flokkurinn okkar styrkist með hverri nýrri kynslóð“. Jafnvel þó að framsóknarmenn taki ef til vill mark á formanni sínum hljóta þeir engu að síður að vona að flokkurinn muni styrkjast með öðrum hætti á næstu mánuðum en hann hefur gert á síðustu árum og áratugum.