Föstudagur 6. júlí 2007

187. tbl. 11. árg.

Þ að er rétt að taka fram í upphafi að hér fylgir löng runa af einföldunum og alhæfingum, eins og búast má við þegarveifað er hugtökum á borð við „íhaldsmenn“ og „frjálshyggjumenn“. Þeim sem eiga bágt með slíka ónákvæmni í hugtakanotkun er ráðlagt að sleppa lestrinum, kolefnisjafna sig og dansa aftur út í sólina.

Menn verða líklega að sætta sig við að hægri menn eða í það minnsta sjálfstæðismenn, hvernig sem á nú að skilja þessi hugtök nú til dags, séu dæmdir til að vera klofnir í frjálshyggjumenn og íhaldsmenn fyrir utan alla hinar greinarnar, svo sem alþjóðasinna og þjóðernissinna, tæknikrata og menn sjálfsprottinna lausna. Íhaldsmenn eru jafnan síður uppteknir af aðhaldi í ríkisrekstri en frjálshyggjumenn, frjálshyggjumenn eru tregari til afskipta af ýmsum þeim persónulegum málum einstaklinga sem kennd eru við siðferði svo sem trúmálum, tjónþolalausum afbrotum og svo framvegis.

Eitt þeirra mála sem þessir hópar hafa gjarnan fundið samstöðu í hefur hins vegar verið að til hlutverka ríkisins heyri varnir þess. Sú samstaða lifði hins vegar ekki af innrásina í Írak. Fljótlega skipuðu íhaldsmenn sér einkum í flokk með þeim sem töldu innrásina og eftirfarandi hersetu nauðsynlega og réttlætanlega af ýmsum ástæðum, svo sem vegna fullkomins virðingarleysis þáverandi einræðisherra Íraks við vopnahlésskilmála frá 1991, harðræðis sama einræðisherra, hugsanleg tengsl hans við hryðjuverkasamtök sem stóðu að árásunum 11. september 2001 og vegna þess að innrásin gæfi tækifæri til að ýta undir þróun lýðræðis í Mið-Austurlöndum. Að því ógleymdu að einræðisherrann hafði ráðist á tvö nágrannaríki og sent fleirum eldflaugar sem ekki voru ætlaðar til frekari notkunar eftir lendingu. Innrásin í Írak átti ásamt valdaskiptunum í Afgangistan að sýna einræðisherrum um allan heim að friðkaupin við þá, sem fóru fram í skjóli Kalda stríðsins, væru ekki tíðkuð lengur. Frjálshyggjumenn töldu hins vegar magir innrásina vera stórkostlegt bruðl opinbers fjár, auk þess að brjóta freklega gegn sjálfsákvörðunarrétti fullvalda ríkis. Þá töldu þeir margir að ekkert náttúrulögmál héldi þessum blóðþyrsta einræðisherra fastar á sínum valdastóli en mörgum öðrum slíkum í sögunni sem hafi verið steypt þegar þegnar viðkomandi höfðu fengið nóg af atlætinu.

Leitin að sameiginlegri afstöðu þessara tveggja hópa til innrásarinnar hefur ekki borið mikinn árangur.

Nú hefur hins vegar umræðan um hernaðinn í Írak snúist að mestu frá innrásinni í landið og til eftirfarandi hersetu þess. Og þá er spurning hvort sjálfgefið sé að ekki finnist sameiginleg skoðun íhalds- og frjálshyggjumanna. Til að byrja með mætti leggja til hliðar ágreininginn um hversu „rétt“ eða „rangt“ var að ráðast inn í ríkið og ræða þess í stað kosti og galla þess að halda þar áfram liðlega 175 þúsund manna fjölþjóðlegu herliði.

Eitt innlegg í þá umræðu er greinin Escaping the Trap: Why the United States Must Leave Iraq eftir Ted Galen Carpenter sem Cato Institute gaf úr í vetur. Eins og titillinn bendir til eru öðru sjónarmiðinu gerð góð skil.