E
Mun „minn tími“ loks koma með póstinum á landsfundinn á vor? |
f fer sem horfir verður kosið um formann í Samfylkingunni í vor. Kosið verður í pósti. Ekki er gott að spá um úrslit. Mótframbjóðandi núverandi formanns hefur ekki farið í prófkjör áður svo að óvíst er hvaða stuðning hún á út fyrir Alfreð Þorsteinsson og Dag B. Eggertsson. Svo langt hafa menn seilst til að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þurfi ekki að fara í prófkjör að hún var jafnvel gerð að forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar án þess almennir flokksmenn – hvað þá blessaður þingflokkurinn – væru hafðir með í ráðum. Samræðustjórnmálin eru oftast eintal.
Hingað til hefur verið gengið að því sem vísu að aðeins verði tveir frambjóðendur í þessu formannskjöri, Ingibjörg og Össur. Sem er furðulegt. Það er í raun aðeins einn þingmaður Samfylkingarinnar sem getur með sanni sagt að að hann hafi notið góðs gengis í prófkjöri eða kosningu af þessu tagi. Jóhanna Sigurðardóttir er eini þingmaður flokksins sem hefur sýnt að að hún getur sópað til sín fylgi í prófkjöri. Jóhanna gjörsigraði Össur í prófkjöri Samfylkingarinnar 1999 og í kjölfarið var allt gert til að koma í veg fyrir að hún byði sig fram til formanns á stofnfundi Samfylkingarinnar sem formlegs stjórnmálaflokks árið 2000. Jafnvel voru uppi hugmyndir um að fundurinn þyrfti að eiga þess kost að leiðrétta úrslitin ef Jóhanna færi með sigur af hólmi í póstkosningunni! Jóhanna var svo með svipað fylgi og Össur flokksformaður í efstu sæti í síðasta prófkjöri í Reykjavík. Þessum árangri náði Jóhanna í síðasta prófkjöri þrátt fyrir að Bryndísi Hlöðversdóttur væri sérstaklega stefnt gegn henni, með stuðningi Ingibjargar Sólrúnar, í þeim tilgangi að velta Jóhönnu úr efsta sæti annars Reykjavíkurkjördæmisins. Sú atlaga mistókst.
Eina kosningin sem Jóhanna hefur tapað var formannskjör í Alþýðuflokknum fyrir áratug. Þá atti hún kappi við formann sinn Jón Baldvin Hannibalsson. Jón Baldvin hafði betur en einungis til þess hrökklast úr ríkisstjórn eftir að Jóhanna hafði klofið flokkinn. Jóhanna á auðvitað miklu meiri hljómgrunn í Samfylkingunni, sem að mestu leyti er gamla Alþýðubandalagið og Kvennalistinn, en í Alþýðuflokknum. Það væri í raun stórfurðulegt ef hún léti ekki reyna á þetta. Það mælir allt með því. Jóhanna er loksins í nægilega vinstrisinnuðum flokki. Póstkosning með mikilli þátttöku ætti að henta „frambjóðanda fólksins“. Andstæðingarnir verða líklega tveir, koma úr sama hópnum og taka hvor frá öðrum. Að því ógleymdu að loforðið frá landsfundi Alþýðuflokksins sumarið 1994 stendur enn án efnda.
Ígær vék Vefþjóðviljinn að nokkrum atriðum í grein sem sjónvarpmaðurinn Egill Helgason ritaði í helgarblað DV. Ekki er þar með allt talið. Þar var fleira áhugavert. Egill telur til að mynda að breytinga geti verið að vænta á smásölu áfengis og einokun ÁTVR verði jafnvel af létt.
Eitt hefur svosem ekki breyst – áfengisverðið. Hugsunin bak við það er enn sú draga úr neyslunni. Hins vegar hefur flest annað verið breytingum undirorpið. Áfengisverslanir eru núorðið þægilegir staðir að koma í, starfsmennirnir eru skapgóðir, leiðbeina fólki um val á drykkjum. ÁTVR er jafnvel farið að auglýsa, opnunartímar hafa verið sveigðir að þörfum viðskiptavinanna. Það gæti verið stutt í að áfengissala verði gefin frjáls að einhverju leyti. Ekki er ósennilegt að þingmeirihluti sé fyrir því. Kannski er það eina sem stendur í veginum óvildin milli Baugs og Sjálfstæðisflokksins – sem óttast afleiðingar þess að afhenda Jóni Ásgeiri og co. áfengissöluna í landinu. |
Það væri fróðlegt ef einhver fjölmiðillinn kannaði lauslega hvort það er í raun meirihluti á þingi fyrir því að aflétta einokun ÁTVR. Svo merkilegt sem það er þá hefur andstaðan við að brjóta þessa einokun á bak aftur ekki síst verið meðal þingmanna landsbyggðarinnar en eins og Steingrímur Sigurgeirsson, sælkeri Morgunblaðsins, gat um í pistli sínum í blaðinu um síðustu helgi er þjónusta ÁTVR við landsbyggðina ekki beint fyrir helstu sælkera. Kannski hafa landsbyggðarþingmenn áttað sig á þessu.
Egill ímyndar sér að það séu jafnvel einhverjir þingmenn sem hafa áhyggjur af því að Baugur selji of margar flöskur ef einokuninni verður aflétt. Frelsi í smásölu á áfengi er þó líklegra til að verða kaupmanninum á horriminni verulegur búhnykkur en stórmörkuðum. Kaupmaðurinn á horninu – að ekki sé minnst á kaupmann á landsbyggðinni – gæti skotið nýrri stoð undir reksturinn ef ríkið léti af einokun sinni á sölu áfengra drykkja.
Um leið væri auðvitað æskilegt að dregið yrði úr skattlagningu áfengis eða henni í það minnsta breytt svo svigrúm sé til verðsamkeppni í ódýrustu vínunum. Það er óþarfi að þetta verði eins og í bensíninu; ríkið stýri verðinu með höftum, verðjöfnun og skattalagningu og fari svo í mál við kaupmennina fyrir samráð.