Íapríl árið 1994 kom út bók á vegum Alþýðubandalagsins sem nefndist „Útflutningsleiðin“. Í ritinu var gerð grein fyrir stefnumálum flokksins í ýmsum málum. Í formála sagði: „Alþýðubandalagið leggur hér fram greiningu á vanda Íslendinga og tillögur og hugmyndir um farsælar lausnir.“ Þegar hér var komið við sögu var aðeins eitt ár eftir af formannstíð Ólafs Ragnar Grímssonar í Alþýðubandalaginu og „Útflutningsleiðin“ var því eins konar minnisvarði um málefnaáherslur formannsins.
Einn kafli skýrslunnar hlýtur að vekja menn til umhugsunar nú um stundir en það er kaflinn „Virkar hlutafélagastjórnir. Afnám samtryggingar.“ Þar eru settar fram kenningar um að íslenskt atvinnulíf sé markað af „víðtæku neti samtryggingar“ og „hagsmunaklúbbum“. Meðal þeirra tillagna sem settar eru fram til að sporna við þessu eru þessar tvær:
- Forstjórum og framkvæmdastjórum stærri fyrirtækja verði ekki heimilað að sitja í stjórnum annarra fyrirtækja. Þannig verði komið í veg fyrir að samtryggingarnet forstjóra taki aðhaldshlutverk hlutafélagastjórna úr sambandi.
- Fjölmiðlum verði gert kleift að veita stjórnendum og stjórnarformönnum stærri fyrirtækja sams konar aðhald og þeir veita nú með réttu ráðherrum, alþingismönnum, embættismönnum og sveitarstjórnarmönnum.
Þessar tillögur eru ekki útfærðar nánar en fróðlegt væri að vita hvort Ólafur Ragnar Grímsson hafi átt við að fjölmiðlum yrði „gert kleift að að veita stjórnendum og stjórnarformönnum stærri fyrirtækja aðhald“ með því að stærri fyrirtækin keyptu fjölmiðlana og þá yrðu hæg heimatökin hjá fjölmiðlamönnum! En sem kunnugt er skýrði Ólafur þetta nokkuð í þingræðu ári síðar og tók af allan vafa hvað við er átt.
Hringamyndanir á sviði fjölmiðla ganga þannig þvert á nútímahugsun á vettvangi lýðræðis. Þannig hefur í ýmsum lýðræðisríkjum eins og í Bandaríkjunum og Evrópu verið sett í lög margvísleg ákvæði sem koma í veg fyrir hringamyndanir, ákvæði sem koma í veg fyrir það að sömu aðilarnir geti haft ráðandi vald á dagblöðum, á sjónvarpsstöðvum og á útvarpsstöðvum. Engin slík lög eru til hér á Íslandi. |
Ég vil þakka hæstvirtum. menntamálaráðherra fyrir þau svör sem hann gaf hér og tel að í þeim felist mikilvæg viðurkenning á því að þessi mál þurfi að takast til sérstakrar könnunar og skoða mjög rækilega og með opnum huga hvort ekki þurfi að setja reglur og jafnvel lög sem tryggja trúverðugleika fjölmiðlunar í landinu og komi í veg fyrir óeðlileg valdatengsl og hringamyndun á þessu sviði. Það eru auðvitað gildar ástæður fyrir því að þróuð lýðræðisríki, bæði í Evrópu og Bandaríkin, hafa talið nauðsynlegt að setja slík lög og slíkar reglur vegna þess að máttur hinna stóru á þessu sviði er slíkur þótt um leið hafi tæknin opnað fyrir hina smáu að það er ekki hægt í lýðfrjálsu ríki að sætta sig við slíkt vald. Á sama tíma og menn eru að breyta stjórnarskrá í átt að meiri mannréttindum er nauðsynlegt að tryggja þetta |
Vefþjóðviljinn deilir ekki þessum áhyggjum af „hringamyndun“ og „neti samtryggingar“ með Ólafi Ragnari Grímssyni og telur að ríkið eigi ekki að skipta sér af stærð eða lögun einkafyrirtækja. En fyrri skoðanir Ólafs á þessum málum sýna svart á hvítu að atlaga hans nú að þingræðinu í landinu er hrein pólitísk tækifærismennska.
Kosningabaráttan fyrir forsetakosningar fer nú að hefjast fyrir alvöru, og stendur baráttan þar á milli þeirra Baldurs og Komma. Baldur Ágústsson hélt í fyrradag kosningafund á Egilsstöðum, hann var í Vestmannaeyjum í gær og í kvöld verður hann með fund á Höfn í Hornafirði. Á morgun mun hann hins vegar sitja námskeið í hagnýtri landafræði við nýstofnaðan framhaldsskóla Vesturlands í Grundarfirði. Baldur hefur gefið það út sem sitt helsta markmið að endurreisa virðingu forsetaembættisins og verður ekki sagt að hann færist mikið í fang. Það er eiginlega sjálfgert að virðing embættisins aukist, því héðan í frá getur leiðin varla legið nema upp.