Eftir leikritið sem leikið var í gær, er enginn efi á því að það forsetaembætti sem einu sinni var, það er ekki til lengur. Það er einfaldlega þannig, að það er ekki lengur hægt að láta eins og til sé „sameiningartákn þjóðarinnar“, forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Það er ekki sérstaklega gaman að því, að minnsta kosti ekki fyrir það fólk sem hefur viljað að slíkt sameiningartákn sé til, en svona er það nú samt. Ólafur Ragnar Grímsson ákvað í gær að leggja það embætti sem honum hefur verið falið um stundarsakir, undir baráttu gegn tiltekinni lagasetningu, sem allir vita að annars vegar helstu stuðnings- og styrktarmenn hans sjálfs og hins vegar gamlir félagar hans úr stjórnarandstöðunni á alþingi, hafa allra manna mest barist gegn. Fjölmiðlamenn og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta geta vitaskuld reynt að drekkja fólki í frösum um „Forseta Íslands“, „málskotsrétt“ og „senda til þjóðarinnar“. En þá horfa þeir framhjá hinum einfalda kjarna málsins. Forsetar Íslands, bæði sá sem nú situr og fyrirrennarar hans, hafa eindregið hafnað tilmælum um að synja lögum staðfestingar, lögum sem hafa verið umdeildari, hæpnari og óafturkræfari en þau sem nýlega var deilt um. Það er ekki svo nú að „forseti Íslands“ sé „að beita málskotsréttinum“ eða „vísa lögunum til þjóðarinnar“. Málið er einfalt. Ólafur Ragnar Grímsson er að beita því embætti sem honum hefur verið falið, til að hindra lýðræðislega kjörinn löggjafa í að setja lög sem fyrirtæki, undir stjórn manna sem honum tengjast náið, telur sig tapa á. Þetta eru að vísu lög sem hann sjálfur hvatti á alþingi að yrðu sett og engum manni datt þá einu sinni í hug að forseti Íslands myndi velta fyrir sér hvað þá meira. Þetta og þetta eitt er kjarni málsins; ekki tal um „málskotsrétt“, eins og nú sitji venjulegur forseti sem taki eðlilega afstöðu til almennra deilumála.
Ólafur Ragnar Grímsson, fjármálaráðherrann sem persónulega setti bráðabirgðalög á sinn eigin kjarasamning, lög sem Hæstiréttur dæmdi svo brot á stjórnarskrá – hann kemur núna og reynir að hindra lýðræðislega kjörið alþingi við löggjafarstarf. Maður, sem á alþingi hvatti eindregið til lagasetningar gegn hringamyndun í fjölmiðlum þegar það eitt hafði gerst að sjónvarpsstöð hafði eignast þriðjung í einu dagblaði, hann talar nú um „ritskoðun og aðrar tálmanir“ þegar alþingi hefur sett slík lög af mun umfangsmeira tilefni. Maðurinn sem segist telja að „sátt“ verði að ríkja um lagasetningu um fjölmiðla, hann vill efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þau lög, svo að um þau verði deilt í allt sumar og fólk skiptist í tvær fylkingar, með og á móti lögunum. Hvar í veröldinni hefur þjóðaratkvæðagreiðsla orðið til að auka sátt? Það er kannski sátt um Evrópumál í Danmörku? Noregi? Maðurinn sem undirritaði lög vegna öryrkjadóms, lög um Kárahnjúkavirkjun, lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði og lög sem snarhertu samkeppnislögin, hann getur ekki undirritað lög sem taka á hringamyndun og eignatengslum á fjölmiðlamarkaði. Og fólk á að trúa þessu, að ekkert annað búi að baki.
Ólafur Ragnar Grímsson talar um „gjá milli þings og þjóðar“. Í hverju hefur sú gjá eiginlega komið fram? Gott og vel, stærsta fjölmiðlasamsteypa landsins – sem jafnframt ræður yfir þeim fjölmiðlum sem helst beita sér við áróður – lætur öllum illum látum. Varla getur Ólafur Ragnar þó teflt því fram sem röksemd, nema hann sé opinberlega tilbúinn að veita þeirri fjölmiðlasamsteypu synjunarvald um öll lög á fjölmiðlamarkaði. Í hverju felst gjáin þá? Hún verður væntanlega að vera alveg gríðarleg, ef hún á að réttlæta það sem Ólafur Ragnar gerði í gær. Hún þarf að minnsta kosti að vera umtalsvert meiri en slíkar „gjár“ hafa orðið á undanförnum árum og áratugum. Birtist gjáin í tvöhundruð manns fyrir utan skrifstofu forseta Íslands eitt vorkvöld í maí? Eða tæplega fjögurhundruð manns á Austurvelli? Í hverju birtist sú „gjá“ sem réttlætir það að maðurinn, sem á að vera sameiningartákn þjóðarinnar, kemur fram með þeim hætti sem Ólafur Ragnar Grímsson gerði? Birtist hún í kennitölusöfnun Róberts Marshalls? „Undirskriftalista“ sem enginn fær að sjá? Lista þar sem hver sem var gat skráð hvern sem var og hefði ekki þurft að fara sjoppu úr sjoppu til að stela eyðublöðum eins og sá hefði þurft að gera sem vildi svindla í hefðbundinni undirskriftasöfnun? Fram að þessu hafa undirskriftarlistar verið opinberir, hafa legið frammi. Hver og einn hefur getað kynnt sér listann. Núna er allt í einu sagt að lagður hafi verið fram leynilegur listi. Það fær enginn að vita hver er á honum. Enginn getur vitað hvort nafn hans er þar eða ekki. Það eru tveir menn sem mega vita hvað er á honum og hvað ekki; Ólafur Ragnar Grímsson og Róbert Marshall. Önnur skemmtileg tilviljun er reyndar svo að annar þeirra er fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins en hinn formaður Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagins – þeir hafa kannski lært þessi vinnubrögð þar. Og fjölmiðlarnir, sem yfirleitt eru fljótir að heimta að gögn verði gerð opinber, með vísan í upplýsingalög auðvitað, ætli þeir hafi þá ekki óskað eftir listanum? Nei, það gerir enginn; þeir endurtaka bara tölurnar sem Róbert gefur þeim upp. Minna ekki einu sinni á að hann lagði til við sína menn að meira að segja nöfn stuðningsmanna laganna yrðu fengin á listann. Það má kannski minna hér á nýlega skoðanakönnun sem sagði að innan við 30 % landsmanna höfðu kynnt sér „fjölmiðlafrumvarpið“, þrátt fyrir ofsafengna fjölmiðlaherferð vikum saman. „Gjá milli þings og þjóðar“! Dettur einhverjum í hug að Ólafur Ragnar Grímsson meini þetta?
Af hverju neitaði maðurinn ekki bara að staðfesta útlendingalögin á dögunum? Þar sameinuðust þó allar ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna um andstöðu, þar var þó safnað nöfnum á lista og öll stjórnarandstaðan var á móti. Er ekki afar mikilvægt að sátt sé um útlendingamál? Eru það ekki þau sem valda hvað mestri ólgu í nágrannalöndum okkar? Af hverju ekki að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þau til að tryggja sátt um málefnið? Eða um önnur lög sem stjórnarandstaðan er á móti og menn geta búið til hasar í kring um? Það eru ótal mál umdeild á hverju ári. Það er hægt að búa til frasa um að þau séu einmitt á mikilvægu sviði. Ef fjölmiðlar eru lýðræðislegir, hvað má þá segja um kosningar. Af hverju neitar forsetinn ekki að staðfesta kosningalögin? Öflugir fjölmiðlar geta kynnt undir deilur um hvaða mál sem er, og slegið upp viðtölum við andstæðinga þeirra. Það er ekkert óleyfilegt við að þeir geri það, en á það að kalla á þjóðaratkvæðagreiðslur? Það er kannski voða gaman í fyrsta skipti þegar það verður þjóðaratkvæðagreiðsla, voða gaman líka að fá svolítinn hasar, já og gott á „stjórnarherrana“ sem Ólafur Þ. Harðarson kallar alltaf svo, rétt eins og hvorki séu konur ráðherrar né þingmenn. Allt þetta kannski voða gaman í sumum augum, en sjá menn virkilega ekki hversu óeðlilegt þetta allt saman er? Og hvað yrði þetta gaman lengi? Hvernig ætla menn að snúa á þá braut aftur að löggjafinn sjái um löggjöfina en sameiningartáknið reyni fremur að sameina en sundra?
Svo talar fólk um að nú hafi stjórnskipan landsins verið breytt. Það má vera. En ef svo er, sjá menn þá virkilega ekki hvað mikið er að? Hver breytir þá stjórnskipaninni? Það er þá ekki löggjafarþingið heldur þjóðhöfðinginn. Ekki þingmenn sem kjósendur kjósa til að setja lög og reglur heldur forsetinn sem kjósendur kjósa til að vera sameiningartákn. Muna menn nú ekki eftir kosningunum árið 1996, þegar fólk fór og kaus Ólaf Ragnar Grímsson, gjarnan með þau orð á vörum að ekki styddi það hann í stjórnmálum eða gæfi neitt fyrir skoðanir hans, heldur væru hann og eiginkona hans svo dæmalaust glæsilegt par, verðugir fulltrúar í kóngaveislum. Það hefur enginn veitt Ólafi Ragnari Grímssyni umboð til að standa fyrir stjórnarbyltingum. Í alþingiskosningum, þar sem umboð til stjórnmálastarfa eru veitt, hlaut hann og flokkur hans sáralítið fylgi. Í forsetakosningum er talað um að stjórnmálaskoðanir forsetaefna skipti engu og stjórnmálaflokkar megi ekkert koma nærri. Allt í lagi, það hefur alltaf verið álitið að verið væri að kjósa „valdalaust sameiningartákn“. En ef forsetaembættinu er breytt eins og núverandi handhafi þess virðist ætla sér, hvernig geta menn þá ætlast til að stjórnmálaviðhorf forsetans skipti engu máli? Og ef þau skipta í raun máli, hverjum dettur þá í hug að Ólafur Ragnar Grímsson hefði verið kosinn forseti Íslands?
Og hverjum dettur eiginlega í hug að hugsanleg þjóðaratkvæðagreiðsla myndi snúast um lögin sjálf? Ætli stjórnarandstæðingar sem eru sammála efni laganna láti tækifærið ónýtt til að koma höggi á ríkisstjórnina? Ætli fylgismenn ríkisstjórnarflokkanna láti afstöðu til málsins vega þyngra en fylgispekt við flokkana sína? Og jafnvel þó svo væri, hverjum getur dottið í hug að það sé eðlilegt að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla í sögu lýðveldisins snúist um einmitt þau lög sem fjölmiðlaveldin, sem eiga að veita borgurunum upplýsingar um málefnið, eru í herferð gegn? Frá hverjum eiga kjósendur – sem samkvæmt könnunum hafa fæstir kynnt sér málefnið sem hin djúpa gjá er um – að fá upplýsingar? Og hvernig halda menn að öll umræða verði, bæði um aðgerðir Ólafs Ragnars eða lögin sjálf?
Hvað gengur þeim manni til sem þessu öllu ákveður að valda? Að „auka sátt í þjóðfélaginu“?