Helgarsprokið 7. mars 2004

67. tbl. 8. árg.

K lisjugerðarmenn Samfylkingarinnar láta sér fátt óviðkomandi. Það er sama hvar borið er niður í stjórnmálaumræðum að undanförnu, ávallt hafa málskrúðsmenn úr röðum þingmanna þess flokks nýjar klisjur á takteinum, og oft jafnvel fleiri en eina um sama fyrirbærið. Ekki eiga þessir ágætu menn alltaf höfundarétt að hugtökunum, en gera þau að sínum ýmist með rangri túlkun eða ofnotkun. Í öðrum tilvikum er um hreina nýyrðasmíð að ræða, eins og til dæmis þegar hugtakið „umræðustjórnmál“ var búið til á liðnu ári í því skyni að breiða yfir stefnuleysi flokksins og tregðu til að taka skýra afstöðu í mikilvægum málaflokkum.

„Látið er í veðri vaka að tillögur um beint lýðræði feli í sér upphaf að einhverju nýju þróunarskeiði lýðræðisins sem stjórnarforms.“

Þessa dagana beinist klisjunotkunin ekki síst að stjórnskipan landsins og lýðræðinu sjálfu. Vinsælustu frasarnir þessa dagana eru „milliliðalaust lýðræði“, „beint lýðræði“ og „rafrænt lýðræði“. Allt eru þetta afar lýðræðisleg, nútímaleg, fagleg og framsækin hugtök og auðvelt fyrir fólk að játa þeim stuðning sinn án mikillar umhugsunar. Að sama skapi er auðvelt að úthrópa þá sem kunna að hafa einhverjar efasemdir sem afturhaldsseggi og úrtölumenn. Látið er í veðri vaka að tillögur um beint lýðræði feli í sér upphaf að einhverju nýju þróunarskeiði lýðræðisins sem stjórnarforms, fulltrúalýðræðið sem er við lýði víðast hvar í hinum frjálsa heimi sé úrelt og muni líða undir lok og við taka ný gullöld þar sem allir geti kosið um öll mál heima í stofu, í gegnum síma, sjónvarp eða tölvu.

Ef hins vegar er skyggnst á bak við hugtökin og málskrúðið kemur í ljós að innihaldið er harla lítið og raunveruleg áhrif breytinga í þessa veru myndu í allra mesta lagi birtast í einhverri fjölgun á almennum atkvæðagreiðslum um einstök málefni eða þá aukinni tölvunotkun í atkvæðagreiðslum til að flýta fyrir talningu. Það hljómar hins vegar alveg ekki nógu nýtt og spennandi að tala um einhverja fjölgun á þjóðaratkvæðagreiðslum; gamla Alþýðubandalagið, Vinstri grænir og Jóhanna Sigurðardóttir hafa talað svo lengi með þeim hætti að það er orðið hálf gamaldags og hallærislegt og því verður að klæða þessa umræðu í þann búning að gamla fulltrúalýðræðið sé dautt og nýtt og fullkomnara stjórnarfyrirkomulag sé að hefja innreið sína.

Þessi hástemmda umræða getur orðið dálítið leiðigjörn en er einhver ástæða til að setja sig upp á móti innihaldinu? Er ekki bara hið besta mál að almenningur geti með beinum hætti haft aukin áhrif á stjórn landsmála í gegnum almennar atkvæðagreiðslur? Er ekki líka af hinu góða að ný tækni sé notuð til að auðvelda framkvæmd kosninga? Til þess að svara þeim spurningum verður auðvitað að skoða bæði kosti og galla. Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur er þannig til dæmis rétt að hafa í huga, að af þeim fjölmörgu málum, sem taka þarf afstöðu til í stjórnmálum, eru tiltölulega fá sem eru svo einföld og afdráttarlaus, að með góðu móti sé hægt að setja fram skýra valkosti í almennum atkvæðagreiðslum. Þannig er til dæmis erfitt að kalla fram afstöðu til tillagna sem fela í sér aukin útgjöld fyrir hið opinbera öðruvísi en að setja um leið fram valkosti við fjármögnun þeirra. Oftast er um að ræða fleiri en einn og fleiri en tvo valkosti í því sambandi og það er að sjálfsögðu til þess fallið að flækja framsetningu spurninga í atkvæðagreiðslum af þessu tagi. Þá verður einnig að hafa í huga að fáir lagabálkar standa einir og án samhengis við önnur lagaákvæði sem í gildi eru. Það getur einnig orðið til að flækja málin í þessu sambandi, enda yrði að gera grein fyrir áhrifum einstakra breytinga, sem bornar yrðu undir kjósendur í almennri atkvæðagreiðslu, á aðrar lagareglur og önnur svið samfélagsins. Þá má benda á, að með mikilli notkun á almennum atkvæðagreiðslum er hætt við að almennur áhugi á þátttöku minnki, enda væri oft verið að kjósa um mál sem tiltölulega fáir hafa áhuga á. Minnkandi kjörsókn myndi síðan hafa þær afleiðingar að áhrif einstakra sérhagsmunahópa eða áhugahópa um einstök málefni myndu aukast. Spyrja má hvort það væri þróun í átt til aukins lýðræðis.

Einnig er rétt að minna á þá afstöðu Vefþjóðviljans, að miklu frekar sé ástæða til að fækka þeim málefnum, sem ákveðin eru á vettvangi stjórnmálanna, heldur en að fjölga atkvæðagreiðslum um einstök mál. Með því að draga úr hlutverki hins opinbera er einstaklingunum gefið meira svigrúm til að ákveða sjálfir hvernig þeir vilja haga lífi sínu.

Þegar rætt er um rafrænar kosningar verður að hafa í huga, að með því að nota tölvutæknina í auknum mæli við framkvæmd kosninga væri verið að draga úr gagnsæi kosninganna. Hin hefðbundna aðferð í kosningum, þar sem kjósandi mætir á kjörstað og merkir við á kjörseðil, hefur þann kost að framkvæmdin er í eðli sínu einföld og auðskilin. Eftirlit er einfalt vegna þess að ekki er um að ræða neina þá tækni, sem ekki er auðskiljanleg hverjum sæmilega heilbrigðum, læsum og skrifandi einstaklingi. Það þarf með öðrum orðum enga sérfræðinga til að annast framkvæmd kosninganna eða hafa eftirlit með því að allt fari fram eftir settum reglum. Fari eitthvað úrskeiðis á yfirleitt að vera auðvelt að komast að því og leiðrétta, til dæmis með endurtalningu.

Með rafrænni kosningu er hins vegar verið að fela sérfræðingum á sviði tölvutækni allt vald í þessum efnum. Allir aðilar, hvort sem um er að ræða frambjóðendur, flokka, stjórnvöld eða hinn almenna kjósanda, verða alfarið að treysta tölvusérfræðingum til að hanna kerfi sem virkar, til að annast framkvæmdina og hafa eftirlit með því að allt fari fram á réttan hátt. Ef tæknin bregst eða sérfræðingunum verður eitthvað á hafa aðrir aðilar engar forsendur til að komast að því hvað fór úrskeiðis eða til að leiðrétta mistökin. Jafnframt er hætta á því að aldrei komi í ljós að mistök hafi átt sér stað.

Við þetta má svo bæta spurningunni um vernd persónuupplýsinga og leynd kosninga. Við rafrænar kosningar þarf alfarið að treysta sérfræðingunum til að byggja upp kerfi sem viðheldur þessari leynd og hinn almenni kjósandi getur ekki á sínum eigin forsendum verið öruggur um að ekki liggi fyrir upplýsingar um það einhvers staðar í tölvukerfum hvernig hann hefur greitt atkvæði.

Af þessu má sjá, að veigamiklir gallar eru á hugmyndinni um rafrænar kosningar. Ekki er hægt að útiloka að einhvern tímann í framtíðinni verði unnt að komast fram hjá einhverjum af þessum vanköntum. Hins vegar er full ástæða til að spyrja hvort nokkur ástæða sé til að fara út í breytingar á kerfi, sem þegar hefur sannað sig og reynst vel í framkvæmd, bæði hér á landi og í öðrum þeim ríkjum, sem búa við gamlar og rótgrónar lýðræðishefðir.