Það þarf að fara að setja umferðarlög. Það gengur ekki að hver aki eins og honum sýnist, hver á móti öðrum og hver jafnvel á annan ef ekki vill betur. Það er ljóst að það sem út af ber í umferðinni er ekki vegna þess að til eru ökumenn sem annað hvort gera mistök eða skeyta ekki um reglur, nei skýringin er sú að það vantar almennar reglur um það hvernig menn eiga að bera sig að í umferðinni. Það þarf að setja almenn umferðarlög og þó fyrr hefði verið. Þetta er krafa bæði þeirra sem tíðum valda slysum í umferðinni sem og nokkurra vina þeirra og velunnara, svokallaðra talsmanna þeirra. Undir þessa kröfu hafa svo áræðin og víðlesin dagblöð nýlega tekið í snjöllum leiðurum sínum. Þetta er krafa dagsins.
Á þessari kröfu – sem virðist nú ekki lítið nútímaleg upplýst og fagleg, jafnvel „fræðileg“ – er lítilsháttar galli. Það eru til umferðarlög, það eru til almennar reglur um það hvernig menn eiga að fara að í umferðinni. Það sem út af ber þar er einmitt vegna þess að menn fara ekki eftir reglunum, hvort sem það er með vilja gert eða ekki. Og sama má segja um ýmis önnur svið. Gallinn er sjaldnast sá að ekki séu til leikreglur. Gallinn er að þeir eru til – og verða alltaf til – sem ekki fara eftir leikreglunum ef þeir telja að þeir geti náð meiri ágóða með því að gera það ekki. Á undanförnum árum hafa verið settar fjölmargar leikreglur og mega menn vera óvenjulega illa að sér um samtímann til þess að átta sig ekki á því. Stjórnsýslulög, upplýsingalög, samkeppnislög, kauphallarreglur, lög um verðbréfaviðskipti, lög um banka- og sparisjóði, og svo mætti telja áfram og áfram. Samkeppnisstofnun, samkeppnisráð, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og Fjármálaeftirlit eru dæmi um sjálfstæðar stofnanir sem settar hafa verið á fót til þess að framfylgja þessum leikreglum. Menn geta haft misjafnar skoðanir á þessum leikreglum – þessu blaði þykja samkeppnislögin til dæmis um of íþyngjandi fyrir frjáls fyrirtæki – en það breytir ekki því að það eru til ýtarlegar leikreglur fyrir alla þá sem á annað borð fara eftir reglum. Það þarf ekki að koma á óvart þegar horft er til þess að erlendar stofnanir, svo sem Harvard-háskóli í Bandaríkjunum, hafa gefið það álit sitt að hvergi í heiminum sé spilling minni en á Íslandi.
Enda er það svo að þeir sem gapa aftur og aftur um það að á Íslandi vanti „skýrar leikreglur“ hafa sjálfir engar sérstakar tillögur að nýjum leikreglum. Allt þetta gjamm er bara venjulegt tal þess sem í örvæntingu reynir að blaðra sig frá því að hann – eða hún – hefur í raun ekkert að segja.