Miðvikudagur 12. febrúar 2003

43. tbl. 7. árg.

Það er allt á sömu bókina lært. Þarna var hún í gær, ein og ótrufluð í löngu viðtali á Rás 2, viðtali sem hefði verið nefnt drottningarviðtal ef einhver annar hefði setið fyrir svörum, og fékk þetta líka ágæta tækifæri til að færa eitthvað bitastætt fram, til að rökstyðja þó ekki væri nema einu sinni, framboð sitt til Alþingis. En nei. Eftir sex vikna heilabrot hefur enn ekkert komið upp úr Pandóruboxi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Það er svo fátt sem hún getur talið gegn núverandi stjórnarflokkum að hún getur ekki bent á neitt sérstakt heldur verður að láta sér nægja að vísa óljóst í það sem hún segir að einhverjir aðrir – ekki hún sko, heldur einhverjir aðrir – hafi því miður á tilfinningunni. Og út á þá tilfinningasemi vill hún að Íslendingar hverfi frá þeirri stjórnarstefnu sem fært hefur þeim áður óþekkta framþróun undanfarinn áratug, og kjósi í staðinn Pandóruna sjálfa!

Í Rásartvö-viðtalinu fór Ingibjörg enn með nýjustu þuluna sína, um að helsta meinsemd Íslands árið 2003 sé sú að ónafngreint fólk hafi á tilfinningunni að forsætisráðherra landsins sé ýmist tortrygginn eða hafi dálæti á fjölmörgum fyrirtækjum í landinu. En þegar málflutningur Ingibjargar er skoðaður þá blasir hins vegar við að hann hittir einkum hana sjálfa og samherja hennar fyrir. Í viðtalinu í gær hélt Ingibjörg þannig áfram þeim málflutningi að forsætisráðherra landsins hefði sérstaklega fjandskapast út í hið áhrifamikla verslunarfyrirtæki, Baug, og talað um að skipta fyrirtækinu upp. Þó fréttamenn hafi undanfarin ár gert lítið af því að spyrja Ingibjörgu Pandóru gagnrýninna spurninga gerðist það samt í gær að útvarpsmaðurinn gat ekki látið hjá líða að nefna að það hefðu reyndar verið þingmenn Samfylkingarinnar sem hefðu talað um að skipta fyrirtækjum upp. Og hverju ætli hin málefnalega Ingibjörg Pandóra Gísladóttir hafi svarað því? Ætli hún hafi ekki bara gengist við því að það hefði verið hennar eigin flokkur sem hefði verið í fararbroddi í þeirri uppskiptingarumræðu sem Ingibjörgu er nú svo uppsigað við?

Nósör. Athugasemd útvarpsmannsins svaraði Ingibjörg Sólrún einfaldlega að bragði og hikstaði ekki einu sinni: „Það var forsætisráðherra sem talaði um það að það væri hugsanlega tímabært að skipta upp fyrirtæki eins og Baug af því hann væri markaðsráðandi og það er í sjálfu sér ekki heimilt að ráðast í það að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum nema þau hafi brotið af sér, því að þá gætum við auðvitað alveg eins tekið fyrir Flugleiði [sic] og við gætum tekið fyrir Eimskip rétt eins og Baug.“ – Já gott fólk, þetta er boðskapur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur: ‘Það var sko ljóti kallinn, þessi Davíð sko, sem fór allt í einu að tala um að skipta upp Baugi. En það má sko ekki skipta upp fyrirtækjum nema þau hafi brotið af sér. Það veit ég en Davíð ekki, enda er hann voða vondur eins og sumir hafa á tilfinningunni.’

En hvernig bárust hugsanleg uppskipti á Baugi inn í þingsali? Svona ef litið er til raunveruleikans en ekki þess sem vinir Ingibjargar Pandóru Gísladóttur hafa á tilfinningunni? Jú, það gerðist nú með þessum látlausu orðum – og hafi menn nú í huga að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir reynir að halda því að fólki að það sé Davíð Oddsson forsætisráðherra sem sé uppskiptahótari íslenskra stjórnmála en Samfylkingin standi þar þver og nútímaleg gegn hinum ofsafulla ráðherra:

„Stóru keðjurnar hafa í skjóli einokunar keyrt upp matarverð. Hreðjatak þeirra á markaðnum hefur kallað fáheyrða dýrtíð yfir neytendur. Ég tel að ríkisstjórninni beri skylda til þess að feta í fótspor verkalýðshreyfingarinnar og fara í viðræður við þá aðila, krefjast þess í nafni þjóðarheillar að þeir sýni ábyrgð og þeir lækki matarverð. Ég held reyndar, herra forseti, að það ættu að vera hæg heimatökin. Er ekki rétt munað hjá mér að helsti trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar, Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarnefndar, sé enn þá stjórnarformaður Baugs? Ef fortölur duga ekki til, herra forseti, þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda.“

Og hver er nú þessi ræðumaður? Hver er það sem hefur máls á því að það sé ekki aðeins sín skoðun heldur beinlínis stefna Samfylkingarinnar að skipta eigi upp fyrirtækinu Baugi, og ekki aðeins til að koma í veg fyrir að fyrirtækið misnoti aðstöðu sína heldur beinlínis til að þvinga það til að breyta vöruverði. Jú, þó Ingibjörg Pandóra treysti því að allir hafi gleymt því, þá eru þetta óbreytt orð málshefjandans, formanns Samfylkingarinnar, Össurar Skarphéðinssonar.