Fjármálaeftirlitið tilkynnti í gær að það hefði samþykkt að fyrirtækið Samson eignarhaldsfélag ehf. keypti tæplega helmingshlut í hlutafélaginu Landsbanka Íslands af íslenska ríkinu. Þessi niðurstaða er fagnaðarefni, að minnsta kosti af sjónarhóli þeirra sem lengi hafa talað fyrir einkavæðingu opinberra fyrirtækja og þá ekki síst þeirra fjármálastofnana sem allt þar til fyrir fáum árum voru í einkaeigu íslenska ríkisins. Til að sýna sanngirni verður þó að viðurkenna að sennilega er þessi niðurstaða fjármálaeftirlitsins ákveðin vonbrigði fyrir íslensku vinstri flokkana, Samfylkinguna og Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, því báðir þessir flokkar hafa undantekningarlítið amast við einkavæðingu undanfarinna ára, annað hvort af yfirlýstum grundvallarástæðum eða þá undir yfirskini tæknilegra úrtalna og almennra undanbragða þess sem er í raun eindregið á móti en vill ekki spilla ímynd sinni frammi fyrir kjósendum. En semsagt, fjármálaeftirlitið leggur ekki stein í götu einkavæðingarinnar og gott er það.
Reyndar hljómar nokkuð einkennilega að opinber stofnun „samþykki“ kaup eins fyrirtækis á hlutabréfum í öðru fyrirtæki eða geri það að uppfylltum skilyrðum. Hugsunin hér mun þó ekki síst vera sú að gæta hagsmuna annarra hluthafa og tryggja sem best að hinir stóru eigendur stýri bankanum eftir hag bankans og almennra hluthafa en ekki einhverjum öðrum prívathagsmunum. Þá mun það hafa vakað fyrir fjármálaeftirlitinu að hinir nýju eigendur njóti ekki aðstöðu sinnar í bankanum í öðrum viðskiptum, svo sem með því að öðlast upplýsingar um hugsanlega keppinauta sína eða með því að hafa áhrif á fjármögnun þeirra og önnur viðskiptakjör.
Gott og vel, eins og Vefþjóðviljinn sagði á dögunum en af öðru tilefni, er mikilvægt að smáir hluthafar séu óhultir fyrir yfirgangi hinna stærri, sem geta freistast til að meðhöndla félag sem einkaeign sína. Engin ástæða er til að gera lítið úr því, en er ekki eitthvað einkennilegt við þetta samt? Landsbanki Íslands hf. er ekki eina hlutafélagið sem er eign eins stórs og margra smárra aðila og ekki kallar það á samþykki eftirlitsstofnana. Og þó eigendur banka væru fleiri og smærri, er ekki jafn hugsanlegt að þeir geti misnotað aðstöðu sína með sama hætti og hér er reynt að útiloka? En hvað um það, vangaveltur um réttmæti eða óþarfi athugana fjármálaeftirlitsins mega bíða að sinni. Forsíðufrétt Morgunblaðsins í gær af samþykki fjármálaeftirlitsins við því að að Samson eignaðist tæplega helmingshlut í Landsbanka Íslands, leiðir nefnilega hugann að öðru.
Undanfarin misseri hefur ein af krossferðum Morgunblaðsins beinst að því sem blaðið hefur kallað dreifða eignaraðild að bönkum. Á ritstjórn Morgunblaðsins þykir það nefnilega gríðarlega mikilvægt að enginn einn aðili eigi stóran hlut í banka og þegar ríkisstjórnin seldi á dögunum meginhlutann af eign ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum harmaði blaðið sérstaklega að ekki skyldi tryggt með einhverju móti að hlutabréfin dreifðust á margar ósamstæðar hendur. Hér er á ferðinni ein all marga meinlokna Morgunblaðsins á síðustu misserum, sem reyndar er í stíl við margar meinlokur sem tengjast svokölluðum samkeppnismálum en segja má að í engum málaflokki vaði jafn margir fremur frjálslyndir menn jafn þykkan reyk og þar. Jæja, en misskilningurinn sem liggur að baki kröfunni um dreifða eignaraðild að bönkum sést nokkuð vel þegar hugsað er til áhuga Samsonar-félaga á bankarekstri á Íslandi.
Það er á flestra vitorði að Samsonar-menn hafa á síðustu árum efnast mjög verulega í viðskiptum sínum. Segjum nú sem svo að þeir félagar hefðu horfið frá þeirri hugmynd að festa kaup á stórum hlut í Landsbankanum eða að tilraunir ritstjóra Morgunblaðsins til að gera það ómögulegt hefðu heppnast. En segjum jafnframt að þeir hefðu áfram haft hug á að reka banka á Íslandi og í stað þess að kaupa Landsbankann hefðu þeir notað fé sitt til að stofna sinn eigin banka. Hefðu einfaldlega lagt allt sitt fé sem stofnfé hins nýja banka og svo tekið að bjóða mönnum til viðskipta. Hvað hefði Morgunblaðið viljað þá? Það hefði nú aldeilis ekki verið „dreifð eignaraðild“ að þeim banka. Hefði Morgunblaðið viljað banna þeim félögum að stofna sinn eigin banka? Eða hefði blaðið kannski viljað taka af þeim bankann, svona eins og sumir vilja í nafni réttlætis „fyrna“ aflaheimildir þeirra sem keypt hafa þær með heiðarlegum hætti? Hvernig hefði Morgunblaðið viljað ná markmiði sínu um „dreifða eignaraðild“? Og það sem mikilvægara er: hvaða ástæða hefði verið til að ná því markmiði?