Það er ekki gaman að verða undir með baráttumál sín. Vefþjóðviljinn hefur af því sína reynslu eins og aðrir og sem dæmi um slíkt, bæði af vettvangi ríkis og sveitarfélaga, má nefna stórfelldar útsvarshækkanir sem meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur knúði í gegn og fæðingarorlofslögin sem stjórnarmeirihlutinn á Alþingi ber ábyrgð á. En þannig er þetta bara, þessi mál fóru eins og þau fóru – þó Vefþjóðviljinn voni að sjálfsögðu að báðar þessar ákvarðanir verði endurskoðaðar. Mönnum geðjast hins vegar misvel að því að verða undir. „Bananalýðveldi!“ hrópaði einhver í gær – og var auðvitað margendurtekið í Ríkisútvarpinu – þegar mikill meirihluti alþingismanna samþykkti lög sem heimila umdeilt álver við Reyðarfjörð. Engu skipti þó löglega kjörið Alþingi tæki þarna ákvörðun með fullkomlega stjórnskipulega réttum hætti og málið auðvitað verið rætt fram og til baka eins og flestum hlýtur að vera kunnugt.
Nú er auðvitað engin ástæða til að elta ólar við upphrópun vonsvikins manns sem telur sjálfsagt eðlilegra að hafa einhvern annan hátt á afgreiðslu máls eins og þessa. Fullyrðing eins og hans heyrist hins vegar stundum, og þá jafnan frá mönnum sem láta eins og þeir hafi víða farið og margt séð í henni veröld, en hvergi aðra eins ógnarstjórn og á þessari litlu eyju í Atlantshafinu. Og vel að merkja, þessir fuglar láta stundum eins og þeir haldi í raun að þeir búi við „ógnarstjórn“. Slíkur málflutningur er svo augljóslega fráleitur – eða „út úr öllum kortum“ eins og sumir segja víst án þess að alveg sé ljóst hvað þeir eiga við – að engu tali tekur. Staðreyndin er nefnilega sú, hvort sem gjömmurum líkar það betur eða verr, að það er vandfundið opnara og frjálsara land en einmitt Ísland.
Á dögunum greindu alþjóðasamtök blaðamanna frá því áliti sínu að hvergi í veröldinni væru fjölmiðlar frjálsari en á Íslandi. Hvergi í veröldinni! Á sama tíma reyna álitsgjafar Samfylkingarinnar, þessir sem tröllríða spjallþáttum sjónvarpstöðvanna, „fréttaskýringaþáttum“ útvarpsins og útsíðum dagblaða, að koma því inn hjá fólki að álitsgjafar stjórnarandstöðunnar komist hvergi að! Alþjóðasamtökin World Economic Forum og hinn allþekkti Harvard-háskóli í Bandaríkjunum gáfu í fyrra það álit sitt að spilling væri hvergi minni en á Íslandi en á sama tíma ganga Samfylkingarmenn um gólandi „Bananalýðveldi! Bananalýðveldi!“.
Allt er þetta bananatal bara innantómt gjamm. En þó það sé leiðinlegt að verða undir – eins og Vefþjóðviljinn getur vottað – þá er sennilega enn leiðinlegra að hafa ekkert fram að færa – eins og Samfylkingin gæti vottað. Og þess vegna fara gjammarar hennar um, veifandi röngu tré frekar en öngu.