Fimmtudagur 5. desember 2002

339. tbl. 6. árg.
Bandaríkin eru land öfganna.
– Evrópskur langskólagenginn.

O

Mynd Margaret Bourke-White af fólki sem varð illa úti í flóðunum í Louisville í Kentucky árið 1937.

fangreind fullyrðing kann að vera rétt að einu leyti. Tilhneigingin til málamiðlana í Bandaríkjunum gengur stundum út í öfgar. Þeir tveir stjórnmálaflokkar sem borið hafa höfuð og herðar yfir aðra eru ekki aðeins svo stórir af því að þeim hefur tekist að sætta sjónarmið svo margra manna heldur einnig vegna þess að þeir eru hvor öðrum líkir. Þeir eru raunar svo líkir að menn kjósa þá sitt á hvað eftir því hvar menn búa í það og það skiptið. Þingmenn demókrata úr vissum ríkjum hafa svo dæmi sé tekið verið tryggari bandamenn repúblíkana á þingi en repúblíkanar úr öðrum ríkjum. Aðrir flokkar komast vart á blað í kosningum. Flokkar trotskýista, fasista, þjóðernissósíalista, græningja, kommúnista og annarra öfgamanna eiga lítið erindi í kosningar þar vestra ólíkt flestum löndum Evrópu þar sem þeir vinna hvern kosningasigurinn á fætur öðrum og komast jafnvel í ríkisstjórn.

Í Bandaríkjunum er furðu mikið er lagt upp úr því að ná breiðri samstöðu um helstu mál á þingi og menn fylkja sér fljótt um forseta landsins þótt þeir hafi beitt sér af alefli gegn honum í kosningum. Og „valdamesti maður í heimi“ getur heldur ekki gert það sem honum einum sýnist. Forsetinn þarf samþykki þings fyrir nær öllu sem hann gerir. Í samaburði við forsætisráðherra Bretlands hefur hann lítil völd einn og sér. Hann þarf að spyrja þingið leyfis um hvert atriði, stórt sem smátt. Á meðan forsætisráðherra Bretlands getur nær einn síns liðs skipað hernum í stríð en forseti Bandaríkjanna má bíða eftir leyfi beggja deilda þingsins. Forseti Bandaríkjanna virðist ekki einu sinni hafa völd í eiginn flokki. Fjórum af síðustu sjö forsetum, George Bush eldri, Jimmy Carter, Gerald Ford og Lyndon B. Johnson mistókst þannig að tryggja sér endurkjör eftir að hafa mætt andspyrnu úr röðum samherja.

Eins og fyrrnefndur frasi hefur mynd Margaret Bourke-White af fólki sem varð illa úti í flóðunum í Louisville í Kentucky árið 1937 oft verið notuð til að lemja á Bandaríkjunum sem landi öfganna, þar sem sumir hafi allt en aðrir ekkert. Ekki skemmir fyrir að brosandi fólkið á skiltinu er hvítt en niðurdregið fólkið í biðröðinni er svart. Yfirleitt er þess ekki getið að fólkið í röðinni hefur lent í náttúruhamförum, er ekki fátækara en næsti maður og fékk þá aðstoð sem það þurfti.