Miðvikudagur 4. júní 2014

Vefþjóðviljinn 155. tbl. 18. árg.

Aldarfjórðungur er nú liðinn frá blóðbaðinu sem kennt er við Torg hins himneska friðar í Kína, þegar kommúnistaflokkur landsins beitti skriðdrekum til að bæla niður andóf sem staðið hafði yfir við torgið í nokkrar vikur. Hundruð eða þúsundir manna létu lífið en kommúnistastjórnin hélt velli og stjórnar enn í Peking.

Og vestrænir ráðamenn, sem allir eru gríðarlega miklir mannréttindamenn og gátu ekki hugsað sér að fara á vetrarólympíuleikana í Rússlandi vegna rússneskra ólaga sem bönnuðu „áróður fyrir samkynhneigð“, eru ákafir að beygja sig og bugta fyrir valdhöfunum í Peking. Séu nógu miklir peningar í boði virðast lítil takmörk fyrir því hvað vestrænir ráðamenn eru tilbúnir að semja um við Kínverja.

Síðasta verk Jóhönnu Sigurðardóttur á glæsilegum valdaferli var að fara til Kína ásamt Össuri Skarphéðinssyni og skrifa þar undir fríverslunarsamnning við kínversk stjórnvöld. Og að sjálfsögðu skoðaði hún heiðursvörð kínverska hersins á Torgi hins himneska friðar.
Það síðasta sem heyrðist hins vegar frá Jóhönnu var gríðarleg reiði hennar yfir því að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson muni taka þátt í athöfn þegar veiði hefst í Norðurá.

Fjöldi íslenskra stjórnmálamanna var mjög hlynntur því að kínverskur auðkýfingur, með náin tengsl við kommúnistastjórnina, eignaðist mikið land á Íslandi. Sennilega hefði það gengið eftir, ef ekki hefði verið fyrir andstöðu Ögmundar Jónassonar, sem þá sat í ríkisstjórn. Bjarni Benediktsson lýsti einnig andstöðu við áformin.

Samningurinn sem Jóhanna undirritaði í Kína var svo borinn undir atkvæði á alþingi og samþykktur. Meðal þeirra sem greiddu atkvæði með honum voru þingmenn sem á sama tíma stóðu fyrir heitum umræðum um það að Illugi Gunnarsson ætti ekki að fara á vetrarólympíuleikana í Rússlandi.