„Hugtakanotkun fólks er oft ákaflega villandi. Því til stuðnings má nefna að iðnjöfrar og aðrir frammámenn í viðskiptum eru við ýmis tilefni kallaðir „olíufurstar“, „viðskiptajöfrar“, „bílakóngar“ eða öðrum sambærilegum heitum. Þeir sem nota slík heiti gefa sterklega í skyn, að þeir geri í raun engan greinarmun á athafnamönnum nútímans og einvaldskonungum liðinna alda. Þó er um eðlisólík fyrirbæri að ræða. „Súkkulaðifurstinn“ ríkir ekki heldur þjónar! Hann drottnar ekki yfir undirokuðum þegnum líkt og konungar lénsveldanna gerður, heldur er hann bundinn neytendum og þeim markaði er setur honum skorður viðskiptanna. „Súkkulaðifurstinn“ er eins og allir aðrir „konungar“ nútímaiðnaðar, háður þeim iðnaði er hann stundar og neytendunum sem hann þjónar. Tilvera nútímakonungsins er því órofa tengd góðvild kaupandans. Um leið og hann fer halloka í baráttunni við keppinauta sína um verð og gæði vörunnar, glatar hann þeirri góðvild er tilvera hans hvílir á.“ Svo segir í ritinu Hugleiðingum um hagmál eftir Ludwig von Mises sem er safn sex fyrirlestra sem Mises flutti árið 1958. Stofnun Jóns Þorlákssonar gaf þetta rit út á íslensku árið 1991. Ólafur Björnsson prófessor ritaði formála.
Ofangreind tilvitnun í Mises virðist eiga fullt erindi í stjórnmálaumræðuna í dag, rúmum 40 árum síðar, ef marka má hróp fulltrúa stjórnarandstöðu í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi. „Auðvaldsklíka“, „sægreifar“ og „leiguliðar þeirra“ og „gróðafyrirtæki“ komu þar við sögu svo fátt eitt sé nefnt. Íslenskir vinstrimenn virðast fastir í gömlu marxísku stéttabaráttufrösunum.
Og eftirfarandi klausa úr Hugleiðingum úr hagmál gæti sem best hafa verið rituð í tilefni Bjartmarz-laganna um tóbaksvarnir sem sett voru í vor: „Látum svo heita að réttmætt sé að hindra fólk í að skaða sig, til dæmis með reykingum eða ofneyslu áfengis. Fyrst þetta er réttlætanlegt, má þá ekki ganga lengra og segja að þar sem sálarheill mannsins sé mun mikilvægari en líkamleg heilsa, hafi ríkið, fyrst það á annað borð hefur vald til að banna neyslu áðurnefndrar vöru, rökfræðilegan rétt til að hlutast til um sálarlíf einstaklingsins? Það eru gild rök að segja að lestur slæmra bóka og áhrif annarra miðla, svo sem tónlistar og slæmra kvikmynda, hafi verri áhrif á manninn en neysla tóbaks og áfengra drykkja. Það virðist því einnig skylda ríkisstjórnarinnar að forða einstaklingum samfélagsins frá slíkum hættum. Sagan ber þess einnig vitni að öldum saman litu yfirvöld á það sem skyldu sína að hafa vit fyrir þegnunum. Nútíminn er ekki heldur laus við hugmyndir af þessu tagi. Ríkisstjórn ein í Þýskalandi áleit það hlutverk sitt að greina á milli fagurra lista og ófagurra og það frá sjónarhóli manns er í æsku féll á inntökuprófi í listaháskólann í Vín! Maður sem fyrrum fékkst við að mála myndir eftir póstkortum, tók að sér að greina á milli listar og hroða. Opinberlega varð það ólöglegt að hafa aðrar skoðanir á list en foringinn og flokkur hans. Þegar við viðurkennum rétt ríkisins til að hefta áfengisneyslu einstaklingsins, hverju getum við þá svarað þeim er heimta eftirlit þess með bókum og hugmyndum?“
Eins og minnst var á hér í Vefþjóðviljanum á laugardaginn eru liðin 120 ár frá fæðingu Mises. Af því tilefni býður Andríki þeim sem kaupa Lögin eftir Frédéric Bastiat Hugleiðingar um hagmál í kaupbæti. Tilboðið stendur til föstudags. |