Vef-Þjóðviljinn mætti á fund hjá Heimdalli félagi ungra sjálfstæðismanna 25. febrúar síðastliðinn þar sem fjallað var um launamál kynjanna og sagði frá fundinum daginn eftir með eftirfarandi hætti:
„Jafnréttismál voru til umræðu á fundi Heimdallar í gærkvöldi. Einn ræðumanna, Helgi Tómasson dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og fyrrum starfsmaður kjararannsóknarnefndar útskýrði erfiðleikana við að bera saman laun karla og kvenna. Í máli hans kom fram að þau meðaltöl sem notuð eru til að bera launin saman eru lítt eða ekki marktæk. Hann sagði jafnframt að hann teldi þann launamun sem oft er talað um að sé á milli karla og kvenna að minnsta kosti mun minni en yfirleitt er látið í veðri vaka og bætti raunar um betur og sagðist ekki treysta sér til að segja til um að nokkur launamunur væri hér á landi.
Það sem veldur þeim misskilningi að hér sé einhver eða jafnvel verulegur launamunur eru erfiðleikar í samanburði. Það sem verður að gera þegar verið er að bera saman tvo hópa er að taka tillit til skekkju sem verður af völdum þátta eins og vinnutíma, stöðu, aldurs og svo framvegis. Þegar þetta hefur verið gert er í versta falli afar lítill mælanlegur munur eftir á milli kynja. Að mati Helga er þessi munur sem sagt svo lítill að ekki er hægt að fullyrða nokkuð um hvort raunverulegur launamunur er á milli kynjanna. Þetta eru óneitanlega afar merkilegar niðurstöður og væri full ástæða fyrir fréttamenn að kynna sér þær áður en þeir fjalla næst um „launamuninn“ og til hvaða „aðgerða“ skuli grípa til að „leiðrétta“ hann.“
Þessi frásögn af málflutningi Helga Tómassonar sem þekkir íslenskar kjararannsóknir betur en flestir aðrir hljómar undarlega í ljósi þeirrar umræðu sem á sér stað í þjóðfélaginu um launamun kynjanna. Því er hvað eftir annað haldið fram að konur fái lægri laun en karlar fyrir sömu störf. Um það liggja þó engar sannanir fyrir. Það hefur ekki verið sýnt fram á að konur fái lægri laun en karlar fyrir sömu störf. Ef til vill verður sýnt fram á það einn góðan veðurdag en samanburður á launum fólks er afar erfiður, ekki síst þegar gerð er krafa um að bornir séu saman jafngamlir einstaklingar, með sömu menntun, sömu starfsreynslu og gerð krafa um að þeir vinni „sömu störf“. Algjörlega sambærileg störf er yfirleitt ekki að finna nema í stórum fyrirtækjum í fjöldaframleiðslu. Þar starfar hins vegar oft aðeins annað kynið. Starfstitlar fólks segja oft lítið um starfið sjálft. Yfirverkfræðingur getur verið án undirmanna en verslunarmaður getur haft forráð yfir tugum starfsmanna. Prófgráður sem heita það sama geta verið algjörlega ósambærilegar vegna mismunandi krafna í skólum víða um heim. Starfsreynsla er aldrei sú sama. Það eina sem bera má saman með nokkurri nákvæmni er aldur fólks.
Það hefur verið gert talsvert úr því að fyrirtæki taki áhættu með því að ráða konu á barnseignaaldri. Fátt nýtur þó meiri skilnings meðal fólks en barneignir (aðeins Hjörleifur Guttormsson og aðrir umhverfisverndarsinnar hafa áhyggjur af barneignum vegna þess að þær fjölga fólki). Það má allt eins slengja fram þeirri kenningu að karlar hafi lægri laun en konur þar sem þeim hættir fremur til drykkju, ólöglegrar fíkniefnaneyslu, afbrota og sjálfsmorða. Konur lifa líka lengur og því minni hætta á að starfsmaður falli frá ef hann er kvenkyns. Þær eru jafnvel betri bílstjórar en karlar ef marka má gjöld tryggingafélaga fyrir bifreiðatryggingar. Karlar eru einnig þeirri náttúru gæddir að þeir geta verið fjarverandi úr vinnu vegna veikinda ungabarna sinna svo lengi sem þeir tóra en konur eignast ekki börn fram á eftirlaunaaldur. Vef-Þjóðviljinn treystir sér því ekki til þess að fullyrða að það fylgi því meiri áhætta að ráða konu til starfa en karl.
Þegar það er haft í huga að ekki hefur verið sýnt fram á mun á launum karla og kvenna fyrir sömu störf hlýtur það að vekja furðu að svonefndir kvenréttindasinnar skuli þráfaldlega halda því fram að konur fái mun lægri laun en karlar. Hvað vakir fyrir þeim með því að telja atvinnurekendum trú um að þetta sé viðtekin venja? Þetta virðist vera enn eitt dæmið um að svokallaðir kvenréttindasinnar vinni gegn hagsmunum kvenna, en Vef-Þjóðviljinn hefur áður vakið athygli á því að rógsherferð þeirra gegn erlendum nektardansmeyjum er ekki til þess fallin að styrkja stöðu þeirra kvenna sem stunda erótískan dans.