Föstudagur 3. desember 1999

337. tbl. 3. árg.

Ef marka má fréttir situr nú einhvers staðar maður, þess albúinn að taka Ögmund Jónasson af lífi. Að minnsta kosti greinir Ögmundur frá því að sér hafi borist fyrirheit um það að hann verði veginn ef hann dregur ekki til baka frumvarp sem banna á rekstur spilakassa. Í viðtali við Ríkissjónvarpið sagðist Ögmundur taka þessa hótun alvarlega þar sem að mjög hefði aukist að menn vildu ná sínum málum fram með ofbeldi. Nefndi Ögmundur svokallaða „handrukkara“ sem dæmi um þá sem beittu ofbeldi þar sem önnur ráð dygðu ekki til. Þótti Ögmundi það greinilega hinir verstu menn.

Nei, handrukkarar eru ekki vinsælir og skyldi engan undra. Þeir munu hafa þann starfa með höndum að ná fram þeim kröfum sem dómstólar myndu ekki fallast á. Til að ná fram markmiðum sínum eru þeir sagðir beita ofbeldi eða hótunum um það. En það eru ekki bara handrukkarar sem þetta á við um. Fleiri hópar grípa til svipaðra ráðstafana þegar þeir hafa í frammi kröfur sem þeim finnst ósennilegt að náist fram með öðrum hætti. Eða hvað á að segja um það þegar verkalýðsforingjar safnast saman á bryggjum og hindra með ofbeldi uppskipun þar sem þeim líkar ekki kaup og kjör áhafnarinnar? Hvað á að segja um „verkfallsverði“ samskonar aðila sem með valdi hindra annað fólk í að mæta til vinnu sinnar, þegar þeir vilja nýta fjarveru þess sjálfum sér og sínum launum til framdráttar?

Það segir ekki litla sögu um réttmæti kröfu, ef sá sem hana hefur uppi treystir sér alls ekki til að bera hana upp við dómstóla en treystir á ofbeldi og aflsmun. Þess vegna svíður mörgum að sjá ofbeldismenn komast upp með slíka háttsemi, jafnvel að lögreglunni ásjáandi. Hins vegar má ekki alltaf áfellast lögreglumenn þó þeir grípi ekki inn í. Í lögreglulögum er mælt fyrir um réttindi og skyldur lögreglumanna. Þar er kveðið á um að lögregla skuli gæta laga og réttar, vernda eignarrétt, lögmæta starfsemi og svo framvegis. Þykir væntanlega flestum það eðlilegt. Svo er allt í einu fyrirskipuð takmörkun á athöfnun hennar. Í 24. gr. segir nefnilega: „Lögreglu er óheimilt að hafa önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar, eins og annars staðar, uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum“.

Þetta er all sérstök regla. Hér er lögreglu beinlínis bannað að vernda t.d. almennt réttaröryggi, eignarrétt og lögmæta starfsemi, ef menn bara vega að þessum réttindum sér til hagsbóta í „vinnudeilu“. Þetta vita verkalýðsrekendur og þess vegna hika þeir ekki við að beita ofbeldi til að ná í „vinnudeilu“ fram þeim kröfum sem þeir búast ekki við að dómstólar fallist á. Þangað til þessi ótrúlega undanþáguregla lögreglulaganna verður afnumin verða menn að una því að lög og réttur falli gjarnan í raun úr gildi þegar einhverjum þóknast að efna til „vinnudeilu“.

Hvernig er það, er það misminni Vefþjóðviljans, eða efndu herforingjar sjómannasamtakanna til útifundar niðri á höfn núna um daginn, til að sýna stuðning almennings við aðgerðirnar á bryggjunni? Og var aðalræðumaðurinn ekki hinn alvarlegi andstæðingur ofbeldismanna og handrukkara, formaður BSRB, Ögmundur Jónasson? Þar hafa mörg spakleg orð fallið.