Helgarsprokið 16. maí 1999

136. tbl. 3. árg.

fridur_50.gif (7362 bytes)
fridur_50.gif (7362 bytes)

Í tilefni 50 ára afmælis NATO var í gær haldin afmælisráðstefna á vegum Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs, félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu.

Á ráðstefnunni voru flutt mörg erindi svo sem sæmir í hefðbundnu afmælishófi. Ávörpuðu samkomuna forystumenn þeirra stjórnmálaflokka sem að samtökunum hafa staðið og litu yfir farinn veg. Voru þeir allir sammála um gæfu þá sem stofnun Atlantshafsbandalagsins var og það hlutverk sem Ísland þjónar í því. Ungt fólk í samtökunum flutti einnig ávörp og var ekki síður sammála um mikilvægi bandalagsins sem reyndi hvað mest á í baráttunni við komúnismann. Þessir ræðumenn komu hins vegar lítið inn á það sem skiptir mestu máli nú; framtíð bandalagsins. Það gerðu hins vegar sagnfræðingarnir Þór Whitehead prófessor og Valur Ingimundarson í sínum fyrirlestrum.

Í fyrirlestri sínum vakti Þór athygli á yfirlýstu hlutverki NATO, sem er að vera varnarbandalag ríkja sem hafa tekið að sér, í anda alþjóðareglna um sjálfsvarnarrétt ríkja, að koma hvert öðru til varnar gegn árásum þriðja ríkis. Þór taldi loftárásir á Júgóslavía lítt yfirvegaðar og ekki geta samræmst þessu hlutverki NATO. Fjölgun aðildarríkja í bandalagið taldi Þór einnig varhugaverða. Óvíst væri hvort aðildarríki NATO gætu staðið undir slíkum skuldbindingum sem hinum nýju ríkjum yrðu veittar með inngöngu í bandalagið. Valur lagði í máli sínu áherslu á nauðsyn þess að skilgreina betur hlutverk NATO utan verndarsvæðis síns og spáði auknu samstarfi Evrópuríkjanna í hernaðarmálum.

Undir þessar skoðanir sagnfræðinganna er vel hægt að taka, sérstaklega varúðarorð Þórs til íslenskra stjórnvalda sem hafa viljað taka undir með þeim sem vilja alþjóðavæða NATO og skoða þann möguleika að hleypa nýjum ríkjum inn í bandalagið. Auðvitað er það ábyrgðarhlutur að vekja slíkar vonir hjá þeim þjóðum sem æskja þess að vera undir verndarvæng Vesturveldanna. Er NATO í stakk búið til að veita þessum ríkjum vernd sína með sama hætti og ríkjunum sem eru innan bandalagsins nú? Getur það ekki skaðað trúverðugleika bandalagsins ef það færist of mikið í fang? Íslendingum finnst kannski ekkert eðlilegra en að Bandaríkjamenn rækju herstöðvar í þessum löndum en óvíst að almenningi í Bandaríkjunum þætti jafn eðlilegt að senda syni sína og dætur á vettvang og borga fyrir veru þeirra þar. Hvaða kostur annar væri í stöðunni? Jú, möguleiki væri að veita þessum ríkjum vernd með kjarnavopnum, en ólíklegt er að slík vernd vísaði á góðan nætursvefn. Loks má nefna að menn mega ekki gleyma því að NATO er ríkisstofnun. Með tímanum hafa þær tilhneigingu til að stækka og gera hlutverk sitt meira en til stóð í upphafi. Ekki er allur munur á því hvort undir stofnunina heyra húsnæðismál eða hernaður. Það er því alls ekki sjálfgefið fyrir íslensk stjórnvöld að taka undir allar óskir um inngöngu nýrra ríkja.