Laugardagur 13. febrúar 1999

44. tbl. 3. árg.

Á fimmtudaginn var greint frá því að áform væru uppi um það í utanríkisráðuneytinu að ráða til starfa Svavar Gestsson, alþingismann Alþýðubandalagsins. Herma fréttir að fyrst í stað verði honum falin verkefni í Winnipeg í tengslum við Landafundaafmælið árið 2000, en í kjölfarið sé stefnt að því að hann verði sendiherra í Kanada.

Hér er um allnokkur tíðindi að ræða. Fyrir það fyrsta má spyrja hver þörfin sé fyrir nýjan embættismann utanríkisþjónustunnar í Winnipeg og hvort raunverulega sé þörf á sendiráði í Kanada. Heimurinn hefur breyst talsvert frá því utanríkisþjónusta hvarvetna í heiminum tók á sig núverandi mynd. Bætt fjarskipti og greiðari samgöngur hafa gert það að verkum, að nú er ekki eins mikilvægt og áður var talið að ríki hefðu fulltrúa sinn „á staðnum“, heldur er hægt að sinna flestum verkefnum í gegnum fjarskipti eða með styttri heimsóknum. Með þessu hefur stjórnmálalegt vægi sendiráðanna minnkað til muna. Þá má nefna, að aukið frelsi í milliríkjaviðskiptum leiðir til þess að minni þörf verður fyrir aðstoð og fyrirgreiðslu stjórnvalda í milliríkjaviðskiptum og dregur það að sjálfsögðu úr viðskiptalegu hlutverki sendiráðanna. Má því velta fyrir sér, hvort ekki ætti frekar að fækka sendiráðum Íslands erlendis heldur en að fjölga þeim.

Væntanleg störf Svavars Gestssonar í utanríkisþjónustu Íslands hafa vakið allnokkra furðu. Það er nefnilega svo að utanríkisþjónustan vinnur við að framkvæma utanríkisstefnu landsins, en Svavar Gestsson hefur alla tíð barist hatrammlega gegn þessari stefnu. Hann hefur áratugum saman verið í fylkingarbrjósti þeirra sem talið hafa að Ísland ætti ekki að eiga samstarf við aðrar lýðræðisþjóðir um utanríkismál og nú er hann verðlaunaður með því að treysta honum til að vera talsmaður Íslands á erlendri grundu.

Það hefur að vísu gerst áður að forystumenn í stjórnmálum hafa verið valdir til þeirra starfa sem þeir eiga fortíðar sinnar vegna lítið erindi í. Nægir þar að nefna tvö dæmi. Steingrímur Hermannsson, sem sjálfur taldi sig hafa öðlast doktorsgráðu í hagfræði með því að leiða ríkisstjórn, en aðrir álitu að hann hefði með þeim störfum sínum sannað að hann vissi minna en ekkert um efnahagsmál, var gerður að seðlabankastjóra. Sem betur fer fyrir efnahag landsins sinnti hann ferðamálum meira en efnahagsmálum. Hitt dæmið er Ólafur Ragnar Grímsson, sem eftir að hafa staðið í miklum átökum bæði innan eigin flokka og á milli flokka og þótti ekki alltaf beita geðfelldum vinnubrögðum, var valinn sameiningartákn.

En ef til vill er einhver allt önnur skýring á ráðningu Svavars en sú að verið sé að verðlauna hann fyrir áratuga andstöðu við utanríkisstefnuna. Vera má að Halldór Ásgrímsson sé bara að ráða hann til að hæðast að honum. Svavar er vissulega hlægilegur í utanríkisþjónustunni.