Fimmtudagur 11. febrúar 1999

42. tbl. 3. árg.

Jóhanna Sigurðardóttir er sjaldan feimin við að tala fyrir hönd „fólksins“. Er engu líkara en þeir sem ekki eru sammála Jóhönnu teljist eitthvað allt annað en fólk. Nokkrum mánuðum fyrir þingkosningar árið 1995 fór fylgi við flokk Jóhönnu Sigurðardóttur í 23,4% samkvæmt skoðanakönnun í DV og útlit fyrir að Þjóðvaki fengi 15 þingmenn. Um niðurstöðu þessarar könnunar sagði Jóhanna að „fólk treysti ekki lengur gamla flokkakerfinu til að ná fram því sem það vill.“ Í þingkosningum fékk Þjóðvaki 4 þingmenn, Kvennalistinn 3 og „gamla flokkakerfið“ 56 þingmenn.
Á þriðjudaginn birti DV skoðanakönnun þar sem fram kemur 35,6% stuðningur við nýtt framboð undir forystu Jóhönnu. Jóhanna kvaðst í samtali við DV meta niðurstöðu könnunarinnar „sem kröfu fólks um breytingar“. Hvað annað?!

Fjölmiðlar ræða oft við Svan Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði þegar þeir óska eftir að fá túlkun á nýjum skoðanakönnunum. Hann er ætíð fús til að spá, en hefur þó í gegnum tíðina haft ótrúlegt lag á að spá ranglega. Það er svo sem engin tilviljun, því Svanur er kappsfullur áróðursmaður vinstri manna og talar jafnan sem slíkur og segir það sem hentar þeim málstað þótt hann flaggi fræðimannstitlinum. Ný skoðanakönnun DV um fylgi stjórnmálaflokkanna er engin undantekning frá reglunni. DV ræddi við Svan um úrslitin og Svanur taldi þau „stórtíðindi“ og hafði uppi mikil gífuryrði eins og áróðursmanna er siður. Neðst í frétt DV voru svo faldar athugasemdir frá tveimur kollegum Svans, þeim Stefáni Ólafssyni og Ólafi Þ. Harðarsyni. Ólíkt Svani töldu þeir varasamt að draga stórar ályktanir af könnuninni og gerðu ekki mikið úr henni, enda hafa þeir líklega meiri áhuga en Svanur á að halda einhverju af fræðimannsheiðri sínum. Hvenær skyldu fjölmiðlar hætta að stilla Svani Kristjánssyni upp sem hlutlausum fræðimanni og fara að umgangast hann eins og þá málpípu vinstri manna sem hann er?

Vef-Þjóðviljinn minnir á að hann er rekinn fyrir frjáls framlög. Bæði er tekið við framlögum frá „fólkinu“ og öllum hinum. Hér getur þú slegist í hópinn.