Á landsfundi Alþýðubandalagsins um helgina vakti það athygli, að nokkrir forystumenn og starfsmenn verkalýðshreyfingarinnar börðust mjög hart fyrir samfylkingu Alþýðubandalagsins og annarra vinstri flokka. Á sama tíma hefur komið fram að Ögmundur Jónasson og ýmsir aðrir forystumenn í samtökum opinberra starfsmanna hafa lagst mjög gegn samfylkingarstefnunni.
Ekkert er við það að athuga, að ofangreindir menn hafi eins og aðrir pólitískar skoðanir og ekki verða þeir sviptir réttinum til að láta þær í ljós á opinberum vettvangi. Hins vegar er sérkennilegt þegar málum er stillt upp með þeim hætti, eins og gerðist hvað eftir annað í aðdraganda landsfundarins og meðan á honum stóð, að almenna verkalýðshreyfingin vilji samfylkingu félagshyggjuaflanna. Verkalýðshreyfingin á ekki sem slík að hafa skoðun á pólitískum málum af þessu tagi og menn verða að gæta sín á því að misnota hana ekki með þeim hætti sem gert hefur verið í samfylkingarmálinu. Fólk úr öllum stjórnmálaflokkum á aðild að verkalýðshreyfingunni og á ekki einu sinni val í þeim efnum! Kjarasamningar, sem styðjast við gildandi lög, gera ráð fyrir skylduaðild, eða a.m.k. skyldugreiðslum launþega til verkalýðsfélaganna, hvort sem þeim líkar stefna verkalýðsforystunnar eða ekki. Að vísu hafa verið færð fyrir því sterk rök að umrædd ákvæði laga og kjarasamninga fái ekki staðist miðað við félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðlegra mannréttindasáttmála, sem Íslendingar eiga aðild að, en enn sem komið er búa landsmenn við þetta ástand.
Hvað opinbera starfsmenn snertir er ástandið jafnvel verra. Þar hefur forysta BSRB (svo grófasta dæmið sé nefnt) gengið jafnvel enn lengra en forysta ASÍ í misnotkun á samtökunum í þágu pólitískra skoðana sinna. Fluttir hafa verið inn fyrirlesarar til að mæla gegn stefnu ríkisstjórnarinnar, keyptar hafa verið auglýsingar í sjónvarpi til að vinna gegn ríkisstjórninni og svo má lengi telja. Og löggjöfin er enn skýrari varðandi skylduaðild opinberra starfsmanna að samtökunum heldur en tíðkast á almenna vinnumarkaðnum og félagafrelsið skert með enn grófari hætti en þar.
Grundvallarendurskoðun vinnulöggjafarinnar er orðin mjög brýn hér á landi. 1996 voru samþykktar ákveðna breytingar í þessum efnum, sem fólu í sér nokkur smá skref í rétta átt. Hins vegar var ekki tekist á við þann mikilvæga þátt, sem nefndur er hér að framan. Ef tryggt yrði að félagafrelsið væri virt á vinnumarkaðnum og fólki yrði í sjálfsvald sett hvort það ætti aðild að stéttarfélögum, þá kæmust forystumenn í verkalýðshreyfingunni ekki lengur upp með að hegða sér með þeim hætti sem þeir hafa gert. Fólk, sem ekki sætti sig við málflutning þeirra gæti greitt atkvæði með fótunum og sagt sig úr félögunum. Það myndi annað hvort leiða af sér faglegri, málefnalegri og ópólitískari málflutning forystumanna verkalýðsfélaganna, ellegar til þess að félögin yrðu aðeins litlir klúbbar öfgafulltra vinstri manna.