Vefþjóðviljinn 27. tbl. 20. tbl.
Áhugi fréttamanna á „mótmælum“ virðist óhaggaður. Þeir sem koma saman og öskra fá pláss í fréttatímum og viðtal um skoðanir sínar.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins er einstök í þessum málum. Hún hefur sent beint út frá „mótmælum“ þar sem mótmælendur „voru um það bil fimm talsins“, eins og fréttamaður orðaði það. Jafnvel þar fékk einn mótmælandann hljóðnema og spurninguna „hverju viljið þið koma á framfæri?“ Síðan var boðskap mótmælandans útvarpað í fréttatímanum.
Í gær var sýnt frá því þegar hópur manna fór í Landsbankann og öskraði á bankastjórann. Það þótti fréttnæmt. En hvað ef hópurinn hefði skrifað blaðagrein um málið, útskýrt skoðanir sínar og fært rök fyrir þeim? Ætli það hefði ratað í fréttatíma?
Hvers vegna er þeim sem öskra gert svona hátt undir höfði?
Hvenær ætla fréttamenn að átta sig á því að mótmæli eru almennt séð ekki sérstaklega fréttnæm?
Þangað til það gerist halda menn áfram að öskra. Og þannig er ýtt undir þá sem tjá sig þannig, frekar en með hefðbundnum rökræðum. Það er enn eitt framlag fréttamanna til íslenskra stjórnmála.