Vefþjóðviljinn 69.tbl. 20. árg.
Bílastæði hafa verið á aftökulista borgarstjórnar Reykjavíkur um árabil. Nema þegar tónleikagestir í útrásarbautanum eiga í hlut. Þá var sett Íslandsmet í bílastæðafjölda innanhúss.
Jafnvel sjúkir og særðir sem munu eiga erindi á nýjan Landspítala, sem ætlunin er að rísi þegar búið verður að greiða tugmilljarða afborganir af Hörpunni eftir 35 ár, munu helst eiga að renna í hlaðið á reiðhjóli.
Nú berast hins vegar fréttir af því að borgaryfirvöld hafi fundið aðra jafngóða ástæðu fyrir bílastæðum og prúðbúna tónleikagesti.
Samkvæmt frétt DV mun sendiskrifstofa ESB á Íslandi fá tvö einkastæði í Túngötunni. Að vísu má gera ráð fyrir að þessi stæði verði um leið tekin úr notkun fyrir almenna borgara og þá getur borgarstjórnin vel við unað.