Vefþjóðviljinn 78. tbl. 20. árg.
Hið opinbera tekur til sín sífellt stærri hluta af tekjum fólks. Stjórnmálamenn virðast alltaf telja næga peninga í kassanum ef einhver vill auka opinber útgjöld. En ef einhver vill lækka skatta þá er það ekki hægt. Eygló Harðardóttir kynnti þannig um daginn glaðbeitt nýjar hugmyndir um að auka útgjöld vegna fæðingarorlofs um átta milljarða króna á ári. Það er ekki víst að hún hefði verið eins spennt ef einhver hefði lagt til skattalækkun sem næmi þeirri fjárhæð. Hún hefði þá kannski spurt hvar ætti að „taka peningana“.
Þetta á alls ekki eingöngu við um ríkið. Sveitarstjórnarmenn eru yfirleitt alveg eins. Þeir eyða og eyða í alls kyns hluti, en lækka hvorki skatta né gjöld. Það er hægt að reisa stúkur við fótboltavelli og opna rándýrar sundlaugar, en það er ekki hægt að lækka útsvarið.
Nú hafa Guðlaugur Þór Þórðarson og sjö aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lagt fram frumvarp um að á launaseðli verði sýnt hvernig staðgreiðsla launamannsins skiptist milli ríkis og sveitarfélags. Ef frumvarpið verður að lögum mun eflaust mörgum koma á óvart hversu mikið þeir leggja til sveitarfélagsins í hverjum einasta mánuði. Langflest sveitarfélög landsins innheimta hæsta leyfilega útsvar af íbúunum. Fæstir sveitarstjórnarmenn sjá neitt að því. Þeim finnst að þeir eigi að útdeila peningunum, frekar en að launþegarnir sjálfir fái að nota þá.
Það er jákvætt ef skilningur fólks á skattgreiðslum til sveitarfélaganna eykst. En enn brýnna er að lækka útsvarsprósentuna. Þar verða þingmenn greinilega að hjálpa sveitarstjórnarmönnum. Breyta þarf lögum og lækka hámarksútsvar sveitarfélaganna. Slík lagabreyting myndi færa fé frá stjórnmálamönnum til íbúanna sjálfra, sem mikil þörf er á.