Vefþjóðviljinn 353. tbl. 19. árg.
Það vefst fyrir ýmsum í hverju hinn mikli árangur á Parísarfundinum um loftslagsmál felst. Hvers vegna er niðurstöðunni fagnað sem miklum tímamótum? Hvers vegna kom fréttamaður Ríkisútvarpsins með gæsahúð af fundinum, hvers vegna táraðist formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands? Eru það kannski bara merki um breytingar í náttúrunni sem víða má merkja vegna loftslagsbreytinga?
En aðalatriðið er auðvitað hvernig menn ætla að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis og færa sig yfir í aðra orkugjafa eða binda það kolefni sem þegar hefur sloppið út í loftið. Það eru kostirnir sem í boði eru til að draga úr styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu.
Því bar vel í veiði að sjálfur Ban Ki-moon aðalritari Sameinuðu þjóðanna ritaði ítarlega grein um efnið í Fréttablaðið í gær. Ekki er annað hægt en að hvetja áhugamenn um þessi mál til að lesa grein aðalritarans.
Stundum verða menn nefnilega margs vísari af engu.