Vefþjóðviljinn 100. tbl. 20. árg.
Hvenær verður eiginlega kosið til þings?
Nú, í lögum nr. 33/1944, 31. grein, sem samþykkt voru í þjóðaratkvæðagreiðslu með 98% atkvæða segir:
Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.
Síðast var kosið til þings í apríl 2013. Næst verður því gengið til kosninga í apríl 2017.
Skúli Magnússon lögfræðingur veik að þessu máli í grein Morgunblaðinu í dag:
Það er grundvallaratriðið í lýðræðishugtaki íslenskrar stjórnskipunar að helstu valdastofnanir hafi lýðræðislegt umboð með því að í þær er skipað til ákveðins tíma með kosningum sem fram fara á grundvelli skýrra leikreglna þar sem miðlun upplýsinga, virk umræða og jafnræði á að vera tryggt. Þannig er kosið til Alþingis á fjögurra ára fresti, svo sem flestir vita, og sitjandi ríkisstjórn verður að njóta stuðnings eða a.m.k. hlutleysis þingsins. Auðvitað getur komið til þess að sitjandi ríkisstjórn biðjist lausnar og óski þess við forseta lýðveldisins að hann rjúfi þing og boði til þingiskosninga. Einkum á þetta við þegar ekki reynist unnt að mynda eða viðhalda starfhæfri ríkisstjórn, svo sem dæmin sýna. Slík staða er ekki uppi í dag.
Hver geta þá verið rökin fyrir kröfunni um að boðað sé til kosninga áður en stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að svo sé gert? Frá sjónarhóli stjórnarskrárinnar og stjórnskipulegs lýðræðis eru slík rök vandfundin.