Föstudagur 3. apríl 1998

93. tbl. 2. árg.

Á Viðskiptavaktinni á Bylgjunni í gær var rætt við Sigfús Sigfússon, forstjóra Heklu hf. Sigfús benti á að töluvert skorti á að við endurnýjum bíla okkar nógu ört. Á götunum eru því gamlir bílar sem eru bæði óöruggari og menga meira en nýir. Þá vék Sigfús að þeirri neyslustýringu á anda Sovétríkjanna sem felst í mismunandi álagningu vörugjalda á bíla en stórir (og öruggir) bílar bera mun hærri skatt. Sigfús benti jafnframt á að engum hefði dottið í hug að skattleggja stór sjónvarpstæki sérstaklega eins og stóra bíla.

Sérfræðinganefnd samgönguráðherra um fjarskiptamál skilaði skýrslu sinni í gær eftir nokkurra mánaða yfirlegu. Í skýrslunni segir m.a.: „Það er því eindregin skoðun nefndarinnar að stefna beri að einkavæðingu Landssímans.Hún er rökrétt framhald þeirra breytinga sem þegar hafa verið gerðar á fjarskiptamarkaði.“ Auk þess segir: „Flýta þarf sölu Landssímans eins og kostur er“ og er svo hugmyndum nefndarinnar um það hvernig salan geti farið fram í þremur áföngum á þremur árum lýst nánar.

Þessi niðurstaða sérfræðinganefndarinnar er afar ánægjuleg og eykur vonir um að nú fari að hilla undir það að gamli Póstur og sími hverfi endanlega úr ríkiseign. Sambærileg þróun hefur þegar átt sér stað í flestum þeim löndum sem við berum okkur yfirleitt saman við og niðurstaðan af því orðið jákvæð.

Ýmsum þykir Halldór Blöndal kannski ekki manna líklegastur til að stíga slíkt skref í frjálsræðisátt, en aðrir benda á að hann hafi áður sýnt að hann sé vel fær um það. Í því sambandi má nefna að hann lagði niður Ríkisskip á sínum tíma, auk þess sem það var auðvitað hann sem lét breyta stofnunni Pósti og síma í hlutafélögin Landssímann hf. og Íslandspóst hf. og undirbjó þannig í raun einkavæðinguna.

Elsa B. Valsdóttir flutti pistil á Rás 2 á þriðjudagsmorguninn. Í pistlinum ræddi hún um þá staðreynd að þegar framboð á íslensku grænmeti eykst þá hækkar grænmetisverð í verslunum! Já, við Íslendingar höldum enn í sovésku efnahagslögmálin.