Vefþjóðviljinn 337. tbl. 18. árg.
Fjárlagaumræðan stendur yfir þessa daga í þinginu og víðar. Fáir ræða þó mikilvægan hlut ríkisfjármálanna, sem er alger uppstokkun og ný forgangsröðun.
Ríkið hefur gríðarlegar tekjur enda borga landsmenn háa skatta. Tekjuleysi ríkisins hindrar það ekki í að sinna einhverjum mjög mikilvægum verkefnum vel. Það væri til dæmis hægt að leggja gríðarlegt fé til viðbótar í heilbrigðismál, án þess að auka skatta eða taka ný lán.
En til þess þyrfti raunverulegan niðurskurð annars staðar.
Ef menn telja að ríkið verji ekki nægilegu fé til einhvers málaflokks, þá ættu þeir að horfa til annarra málaflokka. Ríkið skiptir sínum miklu tekjum á milli mjög margra málefna, sem rýrir hlut þeirra allra.
Það er afar mikilvægt að menn ræði raunverulega forgangsröðun hjá ríkinu. Eitt forgangsmálið gæti til dæmis verið bætt heilbrigðisþjónusta, með nýjum tækjum, bættum húsakosti og betur launuðu starfsfólki. En ef menn vilja slíkt í alvöru, þá eiga þeir einfaldlega að tala fyrir því að aðrir málaflokkar, sem ekki eiga að vera í forgangi, hverfi af ríkisspenanum.
Ríkið hefur þanist út með ótrúlegum hraða. Nýir og nýir sérfræðingar hafa orðið til, sérfróðir í nýjum og nýjum vandamálum. Samfellt finnast ný verkefni sem verður að styrkja af opinberu fé, og allir eiga víst að hagnast á því í framtíðinni. Stjórnarþingmenn vilja meira að segja auka framlög til Ríkisútvarpsins, en svo virðist sem starfsmenn þess geti ekki haldið rekstrinum úti nema fá um fjóra milljarða á ári frá skattgreiðendum, auk verulegra auglýsingatekna.
Það þarf raunverulega forgangsröðun, en ekki nýjar kröfur um skattlagningu á einhverja aðra. Það eru til nægir peningar í ríkissjóði til að sinna allnokkrum málaflokkum mjög vel. En það eru ekki og verða ekki til peningar til að sinna ótalmörgum þrýstihópum á sama tíma.