Laugardagur 30. ágúst 2014

Vefþjóðviljinn 242. tbl. 18. árg.

Það varð stórfrétt á Vísi fyrir skömmu að Kristborg Bóel Steindórsdóttir skrifaði opið bréf á heimasíðu sína til velferðarráðuneytisins þar sem hún spyr hvort „fólki sé refsað fyrir að eiga börn“ og vísar þar til fyrirkomulags svonefnds fæðingarorlofs en skattgreiðendur senda foreldrum barna nokkur hundruð þúsund krónur mánaðarlega í 9 mánuði eftir að barn fæðist, að vísu gegn því að þeir séu heima að sinna barninu. Allir hljóta að sjá að það er til marks um refsigleðina í þjóðfélaginu gagnvart foreldrum að þeim séu sendar nokkrar milljónir króna eftir að barn kemur í heiminn. Fá lönd í heiminum rétta foreldrum slíkt kjaftshögg.

En ef einhver skyldi ekki skilja þetta umsviflaust bauð Kristborg Bóel upp á þennan rökstuðning:

Ef við byrjum bara á því að hugsa um tímarammann. Níu mánuðir. Hér á Reyðarfirði er ekki starfandi dagmóðir, en við erum hins vegar svo heppin að börnin okkar komast inn i leikskólann um eins árs aldurinn. Þarna myndast strax þriggja mánaða gat, fyrir utan að mér skilst að fullt verð hjá dagmóður sé það hátt að tekjurnar þurfi að vera ansi góðar til þess að það hreinlega borgi sig að fara að vinna.

Já þarna á Reyðarfirði er sumsé fundið gat sem ætti að vera á kostnað skattgreiðenda eins og önnur göt þar um slóðir.

Vefþjóðviljinn hefur þó áður bent á, en það ekki skilað sér nægilega um heimsbyggðina, að ekkert gat væri til staðar ef ekkert fæðingarorlof væri til staðar. Það mætti vel hugsa sér slíka refsilækkun gagnvart foreldrum og ekki síður skattborgurunum, ef fæðingarorlofið er svo ofboðslega hörð refsing að menn grenja og góla á heimasíðum undan því.

Að bréfslokum spyr Kristborg Bóel því hún er að „drulla“ á sig af peningaáhyggjum:

Ef einhver veit um smá svarta vinnu handa mér sem hægt er að sinna með ungabarni, þá er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að gefa sig fram. Svona áður en ég þarf að fara að selja úr mér líffæri. Nú eða sjálfa mig.

Ofan á aðrar hörmungar sem fæðingarorlofið leiðir af sér vilja þeir sem það þiggja ekki greiða skatta til að standa undir því heldur nota það sem afsökun til að leita sér svartrar vinnu á meðan skattgreiðendur eru þó einmitt að borga þeim fyrir að sinna barninu.

Aldeilis glæsilegur vitnisburður um hið marglofaða fæðingarorlof.