Fimmtudagur 5. desember 2013

Vefþjóðviljinn 339. tbl. 17. árg.

Leiksigur. Án þess að skella upp úr mættu höfundar lagafrumvarps fyrir grunlausa þingnefnd og hlóðu frumvarpið sitt lofi.
Leiksigur. Án þess að skella upp úr mættu höfundar lagafrumvarps fyrir grunlausa þingnefnd og hlóðu frumvarpið sitt lofi.

Í Fréttablaðinu fyrir viku var slóð laga um endurnýjanlegt eldsneyti rakin til metanólframleiðandans Carbon Recycling International (CRI). Þegar frumvarpið kom í tölvuskjali úr atvinnuvegaráðuneyti Steingríms J. Sigfússonar til umsagnaraðila í október 2012 var Benedikt Stefánsson framkvæmdastjóri hjá CRI skráður höfundur þess.

Benedikt viðurkenndi í viðtali við Fréttablaðið að hafa sent skjalið til ráðuneytisins. 

En starfsmenn CRI létu sér ekki nægja að semja lagafrumvarp ætlað sér til hagsbóta og senda inn skriflega umsögn um það. Þegar frumvarpið frá CRI var nær efnislega óbreytt til umræðu í virðulegri atvinnuveganefnd Alþingis í mars 2013 mættu Benedikt og Ólafur Jóhannsson frá CRI á fund nefndarinnar til að gefa grunlausum þingmönnum umsögn um eigið frumvarp!

Hvernig fór sá fundur eiginlega fram? Má Vefþjóðviljinn geta sér til um það?

Kristján Möller formaður atvinnuveganefndar: Velkomnir kæru fulltrúar CRI. Hvert er ykkar álit á efni frumvarpsins? Nokkuð sem kemur á óvart?

Benedikt Stefánsson CRI: Eftir gaumgæfilega skoðun sýnist okkur þetta hið allra besta frumvarp hjá Steingrími.

Björn Valur Gíslason þingmaður: Steingrímur neitaði sér um bæði svefn og næringu á meðan hann samdi frumvarpið.

Jón Gunnarsson þingmaður: Er eitthvað sérstakt sem þið vilduð hafa öðruvísi?

Ólafur Jóhannsson CRI: Lögin mættu gjarnan taka gildi eftir 7 mínútur í stað 7 mánuða.

Jón Gunnarsson þingmaður: Alveg sjálfsagt minn kæri. Eitthvað fleira handa ykkur?

Benedikt Stefánsson CRI: Við viljum bara þakka ráðherra og nefndinni fyrir vandað starf og undirbúning við gerð frumvarpsins. Við hefðum ekki getað samið þetta betur sjálfir.