Vefþjóðviljinn 304. tbl. 17. árg.
Undanfarið hafa nokkrar nýjar og spennandi tegundir rafbíla verið fluttar til landsins. Sumir þeirra líta jafnvel ekki út fyrir að vera rafbílar en áður mátti sjá það langar leiðir ef rafbíll nálgaðist, sem var kannski jafn gott því ekki heyrist mikið vélarhljóð í þeim.
Eitt síðasta verk Steingríms J. Sigfússonar sem ráðherra var að leggja fram frumvarp til laga um „endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi“. Lögin voru samþykkt án umræðna á Alþingi nóttina sem þinginu lauk í lok mars. Þau kveða á um að 3,5% af seldu eldsneyti á ökutæki hér á landi verði að vera af „endurnýjanlegum“ stofni á næsta ári og ná 10% árið 2020. Það þýðir að blanda þarf eldsneytið með jurtaolíum og etanóli sem unnið er úr korni. Þetta eru því matvæli og sem kunnugt er hafa ekki allir nóg að borða í þessum heimi.
Lög þessi eru sett með vísun í tilskipun ESB 2009/28/EB um að hlutfall svonefnds endurnýjanlegs eldsneytis til samgangna skuli komið í 10% árið 2020 sem er hluti af heildarmarkmiði tilskipunarinnar um að hlutfall endurnýjanlegrar orku verði komið í 20% það ár. Hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á landi er hins vegar þegar um 75% sem er langt umfram 20% meginmarkmið ESB. Ekkert í tilskipun ESB bendir því til að Íslendingar hafi þurft að aðhafast í þessum efnum fyrr en í fyrsta lagi árið 2020 og sú spurning hlýtur einnig að vakna hvort tilskipun ESB geti í raun átt við hér á landi þar sem heildarmarkmiðinu um 20% er fyrir margt löngu náð.
Til marks um hve óviðeigandi þessi tilskipun frá Evrópusambandinu er hér á landi má einnig nefna að minni eldsneytisnotkun með sparneytnari bílum er einskis metin til uppfyllingar á henni. Það er ekki hluti af markmiði ESB eða Steingrímslaganna að auka hagkvæmni og draga úr sóun. Það myndi heldur ekki duga Íslendingum að skipta 10% bílaflotans út fyrir rafmangsbíla til að ná 10% markmiðinu í samgöngum. Og hvers vegna er það? Jú rafmagnsbílar nýta orkuna svo vel svo miklu betur en næst með etanólinu og jurtaolíunni að þeir vega minna! Þess vegna þyrfti 30% bílaflotans að skipta yfir á rafmagn til að ná 10% hlutfallinu.
Íslendingar hafa þegar náð einstæðum árangri í nýtingu endurnýjanlegrar orku. Endurnýjanleg orka hefur farið úr 25% í 75% af heildarorkunotkun hér á landi rúmri á hálfri öld. Það er sjálfsagt að halda áfram á þeirri braut þar sem það er hagkvæmt. Til þess þarf enga tilskipun frá ESB um að flytja matvæli til landsins til brennslu í bílum landsmanna.