Miðvikudagur 6. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 37. tbl. 17. árg.

Nýr formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, tilkynnti í dag að hann myndi ekki leggja til breytingar á ráðherraskipan í ríkisstjórninni.

Nei takk, ekkert forsætisráðuneyti fyrir mig.
Nei takk, ekkert forsætisráðuneyti fyrir mig.

Með öðrum orðum, hann mun ekki leggja til að nýr formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, taki við forsætisráðuneytinu af Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar.

Fyrir þessu geta verið nokkrar ástæður, en ekki margar. Stjórnmálamaður, formaður flokks sem á aðild að ríkisstjórn, afþakkar ekki forsætisráðuneytið og kýs fremur að vera óbreyttur þingmaður, nema fyrir því séu ríkar ástæður.

Þær geta fyrst og fremst verið þessar:

•         Núverandi ríkisstjórn sé svo illa þokkuð, og útilokað að bæta úr því, að skaðinn af að sitja í henni er svo mikill að hann er meiri en ávinningurinn af því að verða forsætisráðherra. Skaðinn af að sitja í ríkisstjórninni er svo mikill, að hann vegur upp þá svölun persónulegs metnaðar sem felst í því fyrir stjórnmálamann að verða forsætisráðherra lands síns.

•         Árni Páll Árnason hefur ekki styrk til þess að taka að sér forsætisráðuneytið, þótt hann vilji. Þingflokkur Samfylkingarinnar myndi ekki styðja hann til verksins heldur fremur kjósa til þess Jóhönnu Sigurðardóttur, þrátt fyrir reynslu síðustu fjögurra ára. Ef þessi skýring er sú rétta, þá býður Samfylkingin í vor fram forsætisráðherraefni sem hún sjálf telur síðri til verksins en Jóhönnu Sigurðardóttur.

Aðrar skýringar eru ekki sennilegar. Trúir því einhver að Árni Páll Árnason vilji ekki verða forsætisráðherra? Hann er formaður Samfylkingarinnar og Samfylkingin fer með forsætisráðuneytið. Skoðanakannanir gefa nú ekki sérstaklega til kynna að forsætisráðuneytið bjóðist flokknum að loknum kosningum. 

Hvers vegna ætli Árni Páll Árnason segist nú ekki munu leggja til breytingu á ráðherraskipan? Þessi ákvörðun segir verulega sögu um annað hvort ríkisstjórnina eða formennsku Árna Páls. 

Þetta ætti að gera það enn brýnna fyrir Árna Pál að setja strax mark sitt á gang mála í þinginu. Þar á hann þann raunhæfa kost að stöðva atlöguna að stjórnarskránni. En kannski hefur hann ekki styrk til slíks. Hann mun þá líklega tilkynna að „hann hafi ákveðið“ að atlögunni verði haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist og Jóhanna Sigurðardóttir stjórni enn Samfylkingunni.