Laugardagur 8. júní 2013

Vefþjóðviljinn 159. tbl. 17. árg.

Lögum samkvæmt gista ferðamenn „svart“ á íslenskum hótelum. Tjöld og annar viðlegubúnaður bera hins vegar 25,5% virðisaukaskatt og 10% toll.
Lögum samkvæmt gista ferðamenn „svart“ á íslenskum hótelum. Tjöld og annar viðlegubúnaður bera hins vegar 25,5% virðisaukaskatt og 10% toll.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa lengi lýst miklum áhyggjum af „svartri“ starfsemi í þjónustu við ferðamenn. Með „svartri“ starfsemi er átt við einstaklinga og fyrirtæki sem greiða ekki skatta og gjöld eins og aðrir.

Það er sjálfsagt að ný ríkisstjórn taki þetta mál til skoðunar. Sem fyrsta skref mætti lækka efsta skattþrep virðisaukaskatts en afnema um leið allar undanþágur og önnur þrep. Ríkisstjórnin hefur jú á stefnuskrá sinni að einfalda skattkerfið.

Þar með yrði til að mynda greiddur fullur virðisaukaskattur af gistingu og laxveiði en fram til þessa hafa þessir þættir ferðaþjónustunnar verið að mestu leyti „svartir“ lögum samkvæmt.

Nýr forsætisráðherra og nýr formaður viðskipta- og efnahagsnefndar hafa boðað að taka á  útlendingum með kylfum og haglabyssum. Útlendingar eru nær 80% þeirra sem kaupa gistingu hér á landi og spurst hefur að í þeim hópi séu margir fulltrúar kröfuhafa og jafnvel hrægammar í eigin persónu. Þeir greiða hvorki virðisaukaskatt af gistingunni né laxveiðinni. Þjóðmenningarleg íslensk fjölskylda sem gistir í tjaldi á Laugarvatni þarf hins vegar að greiða fullan virðisaukaskatt og jafnvel toll af tjaldinu, værðarvoðinni og vindsænginni.