Helgarsprokið 4. ágúst 2002

216. tbl. 6. árg.
Hann pirrar mig hann pabbi
með pexi, röfli og kvabbi,
verður súr og sjabbí
seint ef kem ég heim.
Ég meina það hún mamma
mig er æ að skamma
og engu skárri er amma
ég ógeð hef á þeim.

Eða svo leggur Sverrir Stormsker í munn ungrar stúlku í lagi sínu, „Elsku póstur“. Heiti og efni lagsins vísa til þeirra bréfa sem tímaritið Vikan birti löngum frá lesendum sínum og voru bréfritarar ósjaldan ungar stúlkur sem sögðu farir sínar ekki sléttar. Mörg bréfanna voru á þessa leið enda er ekkert nýtt að ungt fólk viti allt betur en þeir sem eldri eru og kunni þar af leiðandi illa forræði þeirra eldri. Annað mál er svo að stundum sýnist sem umhyggja og áhugi fullorðins fólks á börnum hafi aukist undanfarna áratugi. Ekki svo að skilja að fyrr á árum hafi fólki verið sama um börn sín eða að nú lúti fullorðið fólk með öllu ofríki barna sinna, en um hitt þarf enginn að efast að á síðustu árum hafa menn látið miklu meira með barnagæsku sína en áður.

„Svo vilja menn líka að hið opinbera sjái börnunum fyrir afþreyingu í tómstundum, reki félagsmiðstöðvar, smíðavelli og tónlistarskóla, styrki íþróttafélög og haldi leikjanámskeið. Og þetta á helst ekki að kosta foreldrana sem neitt heldur.“

Nú eru menn nefnilega óþreytandi að tala um „blessuð börnin“. Þeir sem enn horfa á fréttatíma sjónvarpsstöðvanna geta búist við athugasemdum eins og börnin séu „það besta sem við eigum“ og fylgja þeim upplýsingum gjarnan myndir frá samkomum þar sem kór Öldutúnsskóla hrópar nokkur lög. Og á eftir ræðir brosandi fréttamaður við tvo kórfélaga og spyr þá tveggja spurninga: Er gaman að vera í kór? Ætlar þú að verða söngkona þegar þú verður stór? Svör við hvorutveggja verða „já“ og þá er skipt aftur í stúdíóið þar sem Logi Bergmann Eiðsson eða Edda Andrésdóttir brosir af öllum lífs og sálar kröftum.

En þó nú sé mikið látið með börn og fáir eigi nægilega sterk orð til að lýsa umhyggju sinni fyrir þeim, þá er ekki þar með sagt að börn séu betur alin upp en áður eða að menn taki meiri ábyrgð á börnum sínum nú en fyrr. Þvert á móti virðist þróunin vera sú að menn forðist að ala börn sín upp. Fólk sem sækir íslenska veitingastaði má þannig búast við því að hér og hvar á staðnum séu gólandi gestir, tveggja til fimm ára gamlir, og alveg óvíst hvort þeir sitja kyrrir í sæti sínu eða taka á rás um staðinn. Og þegar menn hafa vorkennt þessum munaðarlausu börnum drjúga stund kemur í ljós að þau eru alls ekki munaðarlaus heldur eru foreldrarnir þarna með þeim en hafa bara ekki séð nokkra ástæðu til að taka fyrir gólin og hlaupin. Og þjónar og þernur kreista fram bros og bjóða krakkanum liti og leikföng ef vera mætti að það þaggaði niður í honum um stund.

Stundum er eins og íslenskir foreldrar haldi að það megi bara alls ekki ala börn upp eða beita þau nokkrum aga. Skólakerfið fær sömu skilaboð frá foreldrum en kennarar sem reyna að hafa hemil á uppivöðsluseggjum geta treyst því að jafnskjótt og tekið er á óróabelgjum verða foreldrarnir mættir með stjórnsýslukærur, brjálaðir yfir því að ekki hefur verið virtur andmælaréttur barnsins. Kennari sem reynir að aga barn, hann má gera ráð fyrir að verða þegar í stað „leystur frá störfum á meðan málið er rannsakað“. En samt vilja foreldrar að hið opinbera sjái um barnauppeldið fyrir þá. Og það verður að gera mildilega, faglega og nútímalega. Kannski er ekki rétt að segja að foreldrar vilji að hið opinbera sjái um „uppeldið“; foreldrar vilja að hið opinbera geymi börnin og skemmti þeim. Börnin eiga að komast á leikskóla sem fyrst eftir fæðingu – vel að merkja: „hefja nám“ á leikskóla! – og svo er mikilvægt að við taki „samfelldur skóladagur“ þar sem geyma má börnin allan daginn. Og þetta má helst ekki kosta neitt. Svo vilja menn líka að hið opinbera sjái börnunum fyrir afþreyingu í tómstundum, reki félagsmiðstöðvar, smíðavelli og tónlistarskóla, styrki íþróttafélög og haldi leikjanámskeið. Og þetta á helst ekki að kosta foreldrana sem neitt heldur.

Mætti Vefþjóðviljinn láta í ljós þá skoðun að börn eigi fremur að vera á ábyrgð foreldra sinna en skattgreiðenda. Menn eigi ekki sérstaka kröfu á annað fólk að það taki að sér að geyma börn þeirra frá morgni til kvölds. Nú æpir sjálfsagt einhver að þá verði börn aðeins „forréttindi þeirra efnameiri“ en Vefþjóðviljinn er ekki trúaður á það. Í fyrsta lagi er það að athuga að í ljósi allra hinna fögru orða um mikilvægi barnanna má ætla að flestum væri ljúft að skera niður önnur útgjöld sín til að geta gert betur við börnin. Í öðru lagi blasir við að ef hið opinbera drægi úr þeim gríðarlega kostnaði sem það hefur af barnageymslu þá gæti það lækkað álögur á borgarana verulega og þeir hefðu þar með meira milli handanna. Í þriðja lagi má geta þess að börn þurfa ekki að vera í skipulagðri dagskrá allan daginn, þau hljóta nú einhvern tíma að geta haft ofan af fyrir sér sjálf, nema auðvitað að búið sé að skipuleggja þann hæfileika út úr lífi þeirra. Og í fjórða lagi mætti benda á að þó hið opinbera léti af því að geyma þúsundir barna á hverjum degi, þá er ekki þar með sagt að það geti ekki komið þeim efnaminnstu til aðstoðar með öðrum hætti.

En sumir mega varla til þess hugsa að börn séu eftirlitslaus. Þau þurfa að vera í látlausri gæslu, helst fagfólks. Fyrst hjá fóstrum – sem gárungarnir kalla nú „leikskólakennara“ – svo í skólum og félagsstarfi. Menn vilja koma börnunum í tónlistarskóla og á íþróttaæfingar og þeir foreldrar sem fá alla þessa barnageymslu frá hinu opinbera þeir þakka ekki einu sinni fyrir heldur kvarta sárlega yfir álaginu sem fylgi því að keyra með börnin á milli allra þessara staða. Börnin mega helst aldrei vera „úti að leika“, eins og kynslóðir barna gerðu áður með ágætum árangri, því þá geta þau meitt sig eða eitthvað. Það þarf að vernda börnin út í það óendanlega. Og fólk er alltaf að verða lengur og lengur í hlutverki sakleysingjans, varnarlausa barnsins. Lögmenn eru til dæmis í fullri alvöru farnir að gera kröfur um það að 17 ára einstaklingar séu ekki yfirheyrðir fyrir dómi heldur í sérstöku „barnahúsi“ þar sem „fagaðilar“ spyrji spurninga en „barnið“ sjái hvorki dómarann né önnur miskunnarlaus illmenni sem geti valdið því sálarangist. Sumir vilja draga fólk, sem er komið með bílpróf, inn í „barnahús“ þar sem það sitji í litskrúðugum sófum, innan um leikföng og Mikkamúsar-myndir og svari spurningum félagsráðgjafa. Því allt annað sé tóm harðneskja.

Er ekki of langt gengið? Vefþjóðviljinn er ekki á móti börnum og vill ekki að illa sé farið með þau. En er þessi yfirborðsumhyggja ekki gengin of langt? Má aldrei ala börn upp? Má engan hemil hafa á þeim? Má aldrei segja þeim til? Má ekkert segja við þau? Er þá verið að „brjóta barnið niður“? Er allt „frábært“ sem barn gerir? Á að „hvetja það áfram“, hvaða vitleysu sem það er að gera? Eru nútímabörn gerð úr postulíni? Er eðlilegt að þau gangi gólandi um? Er eðlilegt að þau hlýði foreldrum yfirleitt ekki og aldrei fyrr en eftir margar tilraunir? Á hið opinbera að geyma börn á kostnað skattgreiðenda daginn út og inn? Á í öllum málum að einblína eingöngu á það sem nútímafræðimenn kalla „réttindi barnsins“ en láta öll réttindi fullorðinna lönd og leið?