Vefþjóðviljinn 184. tbl. 16. árg.
Margt mætti segja um forsetakosningarnar, kosningabaráttuna, fjarstæðukenndar umræður um ímyndað valdsvið forseta, úrslitin, kenningar álitsgjafa eftir að þau urðu ljós og margt fleira, en Vefþjóðviljinn ætlar að geyma sér það enn um sinn. Eitt verður þó nefnt í dag, fleira kannski síðar.
Skýringar fréttamanna og frambjóðenda á hinni dræmu kjörsókn voru dæmigerðar. Þar var fyrst og fremst bent á hið sígilda áhugamál kjaftastéttanna: Alþingi lítur lítils trausts og fólk treystir ekki embættismannakerfinu. Aftur á móti voru frambjóðendur allir ákaflega hæfir, fannst frambjóðendunum.
En þetta voru ekki kosningar til alþingis eða um embættismannastéttina. Enginn alþingismaður var í kjöri og eini embættismaðurinn sem var í framboði, hann vann. En í framboði var til dæmis nýhættur formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, með allar helstu ranghugmyndir síðustu missera á takteinum. Sá frambjóðandi virtist ekki freista margra kjósenda til að mæta, þó ekki væri nema til að sýna stuðning við sjónarmið hennar. Hjá þeim sem þó kusu, fékk hún prósent. Annar frambjóðandi var kona sem nefnir mannréttindi og menntun sína í hverri setningu. Hún fékk tvö prósent. Þriðji frambjóðandinn hamraði á því að hann væri ótengdur öllu hér í landi spillingarinnar. Hann náði ekki prósenti.
Það, að fáir mæti á kjörstað, sýnir varla nema eitt. Lítinn áhuga á frambjóðendunum sjálfum. Það var til dæmis enginn borgaralegur frambjóðandi, enginn fulltrúi þeirra sem skilja að forsetinn hefur engar af þeim heimildum sem fréttamenn vildu sem ákafast ræða og frambjóðendur sem ólmast beita. Frambjóðendur voru hópur fólks af vinstrivængnum, sem hafa takmarkaða skírskotun umfram þann hóp, þótt margir hægrimenn hafi auðvitað nýtt kosningaréttinn með einhverjum hætti.
Umræður og umfjöllum ljósvakamiðlanna um kosningarnar voru svo ákaflega lítið áhugaverðar. Þar skorti sárlega þátttöku þeirra sem skilja stöðu forseta Íslands í stjórnskipaninni. Þekking fjölmiðlamanna á því málefni virðist í mörgum tilfellum vera svo veikburða að þeir gætu verið í framboði sjálfir.
Og hver vann svo, í landinu þar sem álitsgjafar segja að stjórnmálamenn og embættismenn njóti einskis trausts?