Föstudagur 9. desember 2011

Vefþjóðviljinn 343. tbl. 15. árg.

Alveg er nú íslenska ríkisútvarpið merkilegt. Í gærkvöldi tókst því að gera langa sjónvarpsfrétt um mótmæli sem það hafði fundið í Washington. Löng og mikil frétt, reiður ræðumaður, ákafir fundarmenn og mikið að gerast.

Í inngangi fréttarinnar sagði að „hundruð manna“ hefðu mætt á mótmælin. Meðal þeirra var fréttaritari Ríkisútvarpsins í Washington sem sagði að talið væri að „milli fimm og sex hundruð manns“ hefðu látið sjá sig, svo þetta var greinilega stórmál.

Milli fimm og sex hundruð mættu á mótmælafund, takk fyrir. Í Bandaríkjunum. Það er hlutfallslega eins og hálfur maður hafi mætt á fund á Íslandi.

Hvernig er hægt að telja fimm hundruð manna mótmælafund, og það í Bandaríkjunun, vera fréttnæman? Ætli nokkrum nema íslenska Ríkisútvarpinu detti það í hug?

En fundurinn virðist hafa verið mjög í anda þeirra í Efstaleiti. Mótmælt var slæmu atvinnuástandi í Bandaríkjunum. Og að hverjum ætli fundarmenn, sem vöktu svona mikla athygli í Efstaleiti á Íslandi, hafi beint spjótum sínum? Auðvitað að repúblikönum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Ekki demókratanum Barack Obama, sem er nú bara forseti Bandaríkjanna, nei nei nei, að repúblikönum í fulltrúadeildinni sem auðvitað hafa komið öllu í steik. Þessi einkennilegi fundur, fimm hundruð manna, þykir langt og mikið fréttaefni í íslenska Ríkisútvarpinu. Og kemur líklega engum á óvart sem hefur fylgst með hugsunarhættinum sem gegnsýrir flesta þjóðmálaumæðu Ríkisútvarpsins undanfarin ár.