Laugardagur 3. desember 2011

Vefþjóðviljinn 337. tbl. 15. árg.

Ef marka má litla frétt á forsíðu Fréttablaðisins á fimmtudaginn hefur Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs sýnt einkar virðingarverða stillingu vegna málaferla gegn Anders Breivik.

Þótt fjölmiðlar þráspyrji Stoltenberg hvað honum þyki um ýmsa þætti málsins, framvindu þess og áhrifin sem það hafi á hann persónulega lætur hann ekki freistast til svara.

Auðvitað ætti það að vera sjálfsagt að handhafar framkvæmdavalds blandi sér ekki í mál sem rekin eru fyrir dómstólum. Dómsmál eiga að hafa sinn gang án þess að stjórnmálamenn séu gjammandi um þau í von um aukið fylgi.

Því miður eru helstu handhafar framkvæmdavaldsins á Íslandi ekki svo vandir að virðingu sinni. Skemmst er að minnast þess þegar nokkrir fyrrum forsvarsmanna Kaupþings voru hnepptir í varðhald í maí 2010. Þá var Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra spurður hvort handtökurnar myndu sefa óánægju almennings.“ Steingrímur svaraði því til að hann vonaðist til þess.

Þingmenn og ráðherrar hafa einnig verið alls kyns yfirlýsingar um málarekstur gegn þeim sem gefið var að sök brot gegn Alþingi í hinni svonefndu búsáhaldabyltingu.

Að ógleymdum fyrstu pólitísku réttarhöldunum á Íslandi sem ríkisstjórnarmeirihlutinn stendur að.