Laugardagur 3. september 2011

246. tbl. 15. árg.

N ú eru þeir reiðir, hljóðfæraleikarar í Sinfóníunni, þeirri mikilvægu ríkisstofnun. Það er hreinlega ætlast til þess að þeir greiði sjálfir einn fimmta af því gjaldi sem almennt er innheimt fyrir bílastæði við Útrásarhöllina. Sá sem ætlaði að leggja bíl sínum í bílastæðahúsinu við Útrásarhöllina í einn mánuð, þyrfti að greiða um ellefu þúsund krónur fyrir mánuðinn, en auðvitað dettur engum í hug að slíkt geti gilt um hljóðfæraleikara Sinfóníunnar. Menn höfðu hins vegar látið sér detta í hug að jafnvel svo merkir menn gætu hugsað sér að að greiða tvöþúsund sjöhundruð og fimmtíu krónur á mánuði fyrir stæði upp við vinnustaðinn.

En þar höfðu menn rangt fyrir sér. Þeir hjá Sinfóníunni eru bálreiðir yfir ósvífninni. Sjálfir munu þeir telja eðlilegt að greiða fjögurhundruð krónur á mánuði fyrir bílastæði við vinnustað sinn í miðbænum, sem er raunar rausnarlegt tilboð, því ef gert er ráð fyrir að þeir vinni fimm daga í viku þá eru þetta heilar tuttugu krónur á dag.

Hér er illa farið með hógværa menn sem ekki eru vanir að gera kröfur á hendur öðrum, og lítið hefur verið gert fyrir. Fyrst var þeim dröslað nauðugum úr Háskólabíói niður í miðbæ, þar sem þeir eru niðurlægðir á hverjum degi með því að vera gert að vinna í Útrásarhöllinni. Því næst er ætlast til þess að þeir borgi sjálfir tvöþúsund sjöhundruð og fimmtíu krónur fyrir mánaðarleigu á bílastæði. Það er því ekki furða þótt þeir séu reiðir og kjarasamningar þeirra séu nú í uppnámi.

Frá því var sagt í fréttum að Sinfónían hefði gefið eftir og greiði nú öll bílastæðagjöld hljóðfæraleikaranna „þar til varanleg lausn“ verði fundin. Hver sem varanlega lausnin verður, þá liggur bráðabirgðalausn í augum uppi: Færa Sinfónóníuna aftur í Háskólabíó hið fyrsta.