Iceland’s president has called a referendum on the latest plan to repay the UK and Netherlands the 4bn euros (£3.1bn) they lost when the Icesave bank collapsed. |
– Frétt BBC um synjun forseta Íslands í dag |
Þ að er undarlegt að sjá fjárhæðina 4bn euros nefnda í sífellu í erlendum fjölmiðlum í dag í fréttum af Icesave málinu. Það eru yfir 600 milljarðar króna. Þessi tala hefur vart sést í íslenskum fjölmiðlum síðan kjósendur köstuðu fyrri Icesave samningi Jóhönnu og Steingríms út í hafsauga 6. mars í fyrra.
Þó er það óbreytt frá fyrri samningi að Íslendingum er ætlað að bera ábyrgð á öllum svokölluðum höfuðstól Icesave-reikninganna.
En undanfarið hafa menn helst nefnt tölur á bilinu 40 til 50 milljarða þegar mat á skuldbindingu Íslands er til umræðu. Og á hverju er það byggt? Jú Björn Valur Gíslason varaformaður fjárlaganefndar segir að nefndarmenn séu fróðustu menn á landinu um stöðu þrotabús Landsbankans. Hann telur að Íslendingar trúi því almennt að Björn Valur Gíslason láti ekki skuldir falla sísona á meðborgara sína. Sér til halds og traust í nefndinni hefur hann reyndar Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Hún þekkir vissulega milljarða stöðutöku í íslenskum banka betur en flestir landsmenn.
En úr einu í annað.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins vakti athygli á því eftir synjun forsetans í dag að væri gengið til þjóðaratkvæðis eftir mánuð, eins og forsætisráðherra gaf til kynna, yrðu aðeins nokkrar vikur í dóma sem gætu haft verulega áhrif á stöðu þrotabús Landsbankans. Þessi dómsmál munu varða svonefnd heildsöluinnlán. Verði þau ekki að forgangskröfum aukast líkur á því að þrotabúið eigi fyrir Icesave reikningnum. Svo halda menn að þetta mál sé ekki þegar á dómstólaleiðinni.
Svona mun þetta hins vegar ganga næstu árin á meðan búið verður gert upp. Allar tafir á “samningum” við Breta og Hollendinga fækka þessum óvissuþáttum.
Það var alveg rétt sem Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur vakti athygli á í Silfri Egils í dag. Hvers vegna hefur enginn látið gera könnun um hug manna til Icesave III undanfarnar vikur? Eða voru slíkar kannanir gerðar en ekki birtar? Líklegasta skýringin er þó að fæstir fjölmiðlar höfðu áhuga á að vekja fólk til umhugsunar um Icesave málið. Ríkisfjölmiðlarnir og Fréttablaðið styðja ríkisstjórnina í þessu máli. Hvorki Ríkissjónvarpið né Fréttablaðið sögðu til að mynda frá könnun sem MMR gerði fyrir Andríki um vilja manna til að senda Icesave III í þjóðaratkvæði. Þessir miðlar höfðu sömuleiðis fátt annað að segja um undirskriftasöfnun til stuðnings þjóðaratkvæði en fréttir af alkunnum vandamálum sem fylgja slíkum söfnunum.
Niðurstaða könnunar MMR var eitt af þremur atriðum sem forsetinn nefndi til að rökstyðja ákvörðun sína um synjun staðfestingar á lögunum frá Alþingi. Fyrir þremur vikum, þegar ljóst var að Icesave málið hefði öruggan stuðning á Alþingi og ætlunin var að hraða málinu í gegnum þingið, fékk Andríki tvö fyrirtæki til að kanna viðhorf til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Annað fyrirtækið, MMR, náði að gera könnunina og vinna úr niðurstöðum í tíma. Andríki bíður enn niðurstöðu úr könnun hins fyrirtækisins um sama mál.
Egill Helgason skrifar á Eyjuna í dag að þessi könnun MMR hafi verið “kostuð af vefriti sem hefur barist gegn samþykkt Icesave.” Já og? Egill reynir að varpa rýrð á kannanir sem gerðar eru af sjálfstæðu fyrirtæki sem sérhæfir sig í slíkum könnunum gegn greiðslu. En hefur hann gert athugasemdir við kannanir Fréttablaðsins, sem Fréttablaðið gerir sjálft um helstu áhugamál Fréttablaðsins og birtir á forsíðu blaðsins? Hefur Egill reynt að draga úr gildi kannana Fréttablaðsins um ESB eða Icesave?
Hver er þessi Jóhann Baugsson sem var alveg óður á Bessastöðum í dag?