Þ eir prófessorar í Háskóla Íslands töldu nýlega að Ísland væri svo nærri því að verða Kúba norðursins eða Norður-Kórea að því mætti koma til leiðar með því einu að hafna ríkisábyrgð á skuldum tiltekins einkabanka. Örlítið þverstæðukennd kenning en vissulega nothæf í Spegilinn.
En kubbarnir í Kúbu norðursins falla á sinn stað einn af öðrum. Í dag bárust þær fréttir að Þórunn Sveinbjarnardóttir hefði rýmt sæti sitt á Alþingi fyrir Lúðvík Geirssyni.
Í maí 1997 talaði Vikublaðið, afturganga Þjóðviljans, við Lúðvík Geirsson, sem þá var bæjarfulltrúi Alþýðubandalagsins í Hafnarfirði og formaður Blaðamannafélags Íslands. Meðal spurninganna var á hvaða stjórnmálamanni hann hefði mest álit. Svar bæjarfulltrúans og formanns Blaðamannafélags Íslands var skýrt: „Lenín hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Hann var traustur foringi“
Vefþjóðviljinn vakti athygli á þessu svari daginn eftir. Aðrir létu sér fátt um finnast. Lúðvík var áfram formaður allra blaðamanna á landinu og var svo hækkaður í tign í Hafnarfirði og gerður að bæjarstjóra.
Í Svartbók kommúnismans geta menn lesið um hrottaskapinn sem þeir félagar Lenín og Stalín leiddu yfir Sovétríkin. Milljónir manna vísvitandi drepnar, oft með hryllilegum hætti. Skelfileg hungursneyð varð að sérstöku tæki til þess að ná fram endurskipulagningardraumum nýju valdhafanna. Allt þótti réttlætanlegt í þeim tilgangi að skapa nýtt Rússland. Vitandi vits var lagt á ráð um útrýmingu heilla stétta, ólíkt nasistum sem beindu spjótum sínum þess í stað að kynþætti sem þeir sögðu bera alla ábyrgð á ógæfu og hruni Þýskalands.
Hvernig færi fyrir manni sem segði ótilneyddur að Göbbels hefði verið traustur foringi og hefði alltaf verið í uppáhaldi hjá sér?