R étt eitt árið hefur dunið á landsmönnum massívur áróður í lok október um að stórlega halli á íslenskar konur. Í samanburði við íslenska karla. Jafnvel er boðið til útifunda og fólk hvatt til að leggja niður störf til að „sýna samstöðu“ gegn þessari miklu þjóðfélagsvá. Svo mikilvægt er að leggja niður störf að kvennafrídagurinn er einfaldlega færður ef hann lendir á helgi, þannig að sýna megi alþjóð að konur vinni í raun kauplaust seinni part vinnudags. Við verðum að standa saman, segja hrærðar framkvæmdastýrur á alls kyns jafnréttisstofnunum hins opinbera. Þessi áróður er allur fjarmagnaður af hinu opinbera, þessu þarna sem þykist vera að spara voðalega og skera allt niður við trog. Hryggjarstykkið í áróðrinum er að íslenskar konur séu í raun sviknar um laun. Því er haldið blákalt fram að konur fái lægri laun en karlar „fyrir sömu störf“. Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins síðastliðið föstudagskvöld voru jafnvel fengnar tvær „kvenréttinda“-konur til að halda þessari fjarstæðu fram með hjálp umsjónarmanns þáttarins. Hvenær verður einhverjum tveimur sem trúa ekki í blindni á launamun kynjanna boðið að mala í korter í Kastljósinu við lof þáttarstjórnanda?
Íslenskir karlar eru að meðaltali með hærri laun en konur. En þegar búið er að taka ýmsa þætti svo sem vinnutíma, menntun og starfsreynslu með í reikninginn er munurinn ekki marktækur. Í gær hættu margar konur að vinna tæpum tveimur klukkustundum fyrr en venjulega þar sem þær töldu að þá væri vinnu þeirra lokið ef mið væri tekið af „launamuni kynjanna“. Það er ekki alveg ljóst hvað átt er við með hugtakinu, stundum er vísað til munar sem er á heildarlaunum, óháð vinnutíma, ábyrgð o.s.frv. eins og skipuleggjendur „kvennafrídagsins“ virðast gera en algengara er sennilega að vísað sé til þess munar sem hugsanlega kann að vera á launum karla og kvenna og skýrist af kynferði einu. Það er alls ekki augljóst hvernig hægt er að prófa tilgátur um hvort launamunur milli einstaklinga skýrist af kynferði. Helgi Tómasson prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands skýrir þetta vel í grein sem birtist í 2. hefti Þjóðmála árið 2006.
Mæliskekkjur fylgja allri gagnasöfnun og spurningin snýst um eðli þeirra umfang og hver viðbrögðin eiga vera. Mæliskekkjur eru í öllum gagnabönkum. Það er bara spurning um eðli þeirra og umfang. Menn sem vinna með tölfræðileg gögn þurfa því að hugleiða hver áhrif af mæliskekkjum séu. Í kennslubókum í tölfræði eru iðulega gert ráð fyrir því að gögnin séu hrein eða að auðvelt sé að hreinsa þau. Sem dæmi um villur í manntali Bandaríkjanna árið 1960 er að þar voru 62 konur á aldrinum 15-19 ára sem áttu fleiri en 12 börn og mikið var um ekkjur yngri en 14 ára (De Veaux og Hand, 2005).Í launakönnunum getur mæliskekkja verið bæði í launabreytunni sjálfri en ekki síður í skýribreytunum. Dæmi um mæliskekkju sem er algeng í launakönnunum er mæling á stöðu starfsmanns, þ.e. hvort hann er flokkaður sem yfirmaður eða undirmaður. Í launakönnunum Hagstofu (áður Kjararannsóknarnefndar) hefur legið fyrir að í launbókhaldi er fjöldi yfirmanna flokkaður sem undirmenn og einnig kemur fyrir að undirmenn séu flokkaðir sem yfirmenn. Svona villa bjagar mat á meðallaunum bæði yfirmanna og undirmanna. Þar sem yfirmannshlutfall er misjafnt eftir kynjum verður bjögunin misjöfn eftir kynjum. Gerum ráð fyrir að yfirmenn hafi tvöföld laun undirmanna og að líkur á að yfirmaður sé ranglega flokkaður sem undirmaður séu 30% og að undirmaður sé ranglega flokkaður sem yfirmaður séu 5%. Gerum einnig ráð fyrir 30% karla séu yfirmenn og að 5% kvenna séu yfirmenn. Þessar tölur eru raunhæfar miðað við það sem var í úrtaki Kjararannsóknarnefndar á árunum 1986-1990 fyrir skrifstofufólk. Með reglu Bayes (líkindafræðiregla) um skilyrtar líkur er hægt að sjá að bjögunin sem af þessu hlýst er þannig að karlkyns undirmenn virðast hafa ca. 10-12% hærri laun en kvenkyns undirmenn og að karlkyns yfirmenn virðast hafa ca. 30% hærri í laun en kvenkyns yfirmenn. Bjögun af völdum flokkunarskekkju fer því langt með að skýra þann mun sem hefur stundum verið á tímakaupi skrifstofufólks eftir kynjum í úrtaki Kjararannsóknarnefndar. |
Það er líka gegn allri almennri skynsemi að konum sé greitt lægra kaup en körlum fyrir sama vinnuframlag. Væru aðstæður þannig myndu einhver fyrirtæki einfaldlega sjá sér þann leik á borði að ráða bara konur, bæta þeim launamuninn að mestu leyti en hafa samt forskot á önnur fyrirtæki í launakostnaði. Nema kvennahreyfingunni og jafnréttisstofunum hafi með áróðri sínum tekist tekist að gjaldfella vinnukrafta þeirra. En Helgi Tómasson telur einfaldlega að það standi íslenskum vinnuveitendum ekki til boða að greiða konum lægri laun er körlum.
Ljóst er að mikið af mældum launamun er vegna hegðunar þeirra kynslóða sem nú eru á vinnumarkaði. Í sumum núlifandi kynslóðum er stór hluti kvenna sem hefur miklu minni reynslu á vinnumarkaði en karlar. Augljóst er að tölfræðilíkan sem ætti að skýra allan vinnumarkaðinn fyrir allar núlifandi kynslóðir er flókið. Einföld líkön gefa bjagaða mynd og leiða til þess að fólk hrapar að alröngum ályktunum. Það er ljóst að hugsanlegt misrétti milli kynja eða kynþátta getur ekki skipt mörgum prósentum. Sömuleiðis er afar ósennilegt að menn hafi myndað samtök um að stunda mismunum sem bitnar á heilum hóp. Það myndi krefjast samstöðu, sem hætt er við að brotnaði þegar harðnaði á dalnum í hagkerfinu. E.t.v. eru einhvers staðar til vinnuveitendur sem mismuna einstaklingum, hygla ættingjum sínum eða flokkssystkinum án þess að horfa í kostnaðinn. Hvort að slík umbun er algengari meðal annars kynsins er ekki vel ljóst. Slíkt getur hins vegar ekki viðgengist til lengdar í markaðskerfi og alls ekki í slíku mæli að dugi til að hreyfa til meðaltal stórs hóps. Sér í lagi er fráleitt að taka það sem bandaríski forsetaframbjóðandinn John Kerry sagði í kosningabaráttu 2004 að það að konur hefðu 74% af launum karla væri einhver mælistika á óréttlæti. Varaforsetaframbjóðandinn Geraldine Ferraro hafði uppi svipuð orð á flokksþingi demókrata 1984 nema að þá var prósentan 59%. Þessir stjórnmálamenn ætluðu sér augljóslega að afla sér vinsælda með þessari framsetningu á gögnum Á Íslandi hafa verið nefndar tölur á bilinu 65%-90% allt eftir því hvers konar tölfræði líkön eru notuð. Fyrir marga einsleita hópa eru prósenturnar jafnari en ótrúlega einföld líkön virðast skýra mjög mikið. Eðlilegt og sjálfsagt er að efast um þessar tölur. Þeir sem eru að fara út í fyrirtækjarekstur á Íslandi ættu ekki að láta sig dreyma um að reyna að borga konum lægri laun og ætlast til sömu afkasta. |
Íslenskar konur hafa það betra en flestir jarðarbúar. Það má jafnvel halda því fram að konur hafi að jafnaði aldrei haft það betra í veraldarsögunni en á Íslandi undanfarna áratugi. Hvenær mun „kvennahreyfingin“ þakka sjálfum sér og öðrum Íslendingum þær ótrúlegu framfarir og gæfu sem íslenskar konur búa við? Jafnvel þótt menn trúi því að til sé 7% „óútskýrður“ launamunur milli íslenskra karla og kvenna gefur það vart tilefni til þeirra kveinstafa sem íslenski jafnréttisiðnaðurinn leggur upp með.