Fréttablaðið slær því upp á forsíðu í dag að arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja séu hærri en veiðigjöldin.
Ætli einhverjir taki andköf af reiði og hugsi með sér að einhverjir gráðugir útgerðarmenn fái hreinlega meira af „sameign þjóðarinnar“ en eigandinn, þjóðin sjálf?
Líklega. Það eru mjög margir búnir að sannfærast um að þeir sjálfir og aðrir Íslendingar séu „eigendur“ fiskimiðanna við landið, og að það viðgangist að einhverjir aðrir nýti „þeirra“ auðlind, án þess að greiða nægilega mikið fyrir „afnotin af auðlindinni“.
Allt er þetta misskilningur, sem margra áratuga áróður hefur náð að breiða út. Vissulega segir í lögum að fiskimiðin við Ísland séu sameign þjóðarinnar. En í því felst einfaldlega að tryggja skal að fiskimiðin verði ekki nýtt þannig að þau spillist til frambúðar. Að allt sé reynt til að tryggja að alltaf verði gjöful fiskimið við landið, eins og slíkt er á færi mannanna að ráða við, þjóðarhag til hagsbóta.
Menn ættu að muna í hvaða lögum ákvæðið um „sameignina“ er. Það er í sjálfum kvótalögunum. Svo augljóst er að kvótalögin brjóta ekki gegn sameignarákvæðinu.
Sjávarútvegurinn greiðir verulega skatta til hins opinbera. Fyrirtækin greiða háa tekjuskatta þegar vel gengur. Fyrirtækin veita þúsundum manna atvinnu um allt land, kaupa vörur og þjónustu og greiða eftirsótt laun sem háir skattar eru greiddir af. Hinn almenni Íslendingur hefur mikinn hag af velgengni sjávarútvegsins og „þjóðin“ fær þannig arð af „auðlind sinni“.