Þ að virðast vera örlög þeirrar ríkisstjórnar, sem nú situr að völdum, að sameinast helst um þau málefni sem minnsta þýðingu hafa. Öðru máli gegnir um veigamikil mál sem mikilvæg eru í ljósi almannahagsmuna. Þar er hver höndin uppi á móti annarri. Þannig virðist vera einfalt mál fyrir bæði fyrir Samfylkingu og Vinstri græna að ná samstöðum í sínum röðum um alls konar innihaldslausar yfirlýsingar og „táknrænar aðgerðir“ – að sjálfsögðu í anda pólitískrar rétthugsunar – en þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum í þágu almennings og atvinnulífs, þá er allt í upplausn og ekkert aðhafst.
Í gær kynnti forsætisráðuneytið drög að siðareglum fyrir ráðherra og starfsmenn stjórnarráðsins. Textinn hefur verið gerður opinber og er hægt að nálgast hann á vef forsætisráðuneytisins. Gefst almenningi kostur á að senda inn athugasemdir og ábendingar fyrir 9. nóvember. Vefþjóðviljinn veit ekki hvort hann telst með almenningi að mati forsætisráðuneytisins en leyfir sér hins vegar að leggja til að sem flestir sendi inn athugasemdina: „Keisarinn er ekki í neinum fötum“.
Staðreyndin er nefnilega sú að á þeim 10 blaðsíðum sem „sérfræðinganefnd“ forsætisráðherra hafa tekið saman er ekkert nýtt. Um er að ræða mikið orðagjálfur um sjálfsagða hluti. Í mörgum tilvikum er verið að umorða reglur sem þegar er að finna í stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og öðrum lögum sem varða stjórnskipun og stjórnarfar. Í öðrum tilvikum er verið að setja á blað almennar ábendingar um að menn eigi að vinna vinnuna sína sómasamlega og ekki að verða sér til skammar. Þarf virkilega að skrifa ábendingar af því tagi niður á blað og setja það í umbúðir siðareglna til að menn geri slíkt? Þarf að segja í siðareglum að ráðherra skuli byggja ákvarðanir sínar á bestu fáanlegum upplýsingum? Þarf að taka fram að ráðherra eigi að vera í sem bestum tengslum við almenning? Þarf að setja sérstaka reglu um að ráðherra eigi að leiðrétta mistök eða misskilning? Er virkilega nauðsynlegt að taka fram að ráðherrar og starfsmenn þeirra eigi að sinna starfi sínu af alúð, trúmennsku og heiðarleika.
Auðvitað má nefna ótal dæmi um að ráðherrar eða embættismenn í ráðuneytum hafi ekki unnið vinnuna sína nógu vel, tekið rangar ákvarðanir á ómálefnalegum forsendum, leynt upplýsingum, gefið þinginu rangar upplýsingar eða starfað þannig að ekki samræmist vönduðum stjórnsýsluháttum eða góðum siðum. Icesave-fíaskóið frá því snemma á þessu ári og fram á þennan dag er til að mynda uppfullt af slíkum dæmum. Tilkoma siðareglna breytir hins vegar engu í þessum efnum. Þingið á að fylgjast með embættisfærslu þeirra og halda uppi gagnrýni ef ástæða er til. Almenningur getur leitað til umboðsmanns Alþingis vegna stjórnsýsluhátta og brota á lögum og reglum um stjórnsýsluna og hefur það embætti líka almenna eftirlitsskyldu á því sviði. Síðast en ekki síst eru það kjósendur sem eiga að fylgjast með ráðherrunum og veita þeim ráðningu ef ákvarðanir þeirra, framganga eða hegðun er ekki í samræmi við það sem til er ætlast af mönnum í slíkum embættum.
Kannski er enginn stór skaði af því þótt siðareglur af þessu tagi séu settar á blað þótt skattgreiðendur hafi auðvitað haft kostnað af því að þær voru samdar og fjöldi manna þurfi að eyða tíma sínum í að kynna sér þær. Helsta raunverulega hættan felst auðvitað í því að menn gagnálykti á þann veg, að allt sem ekki er beinlínis bannað í slíkum reglum sé þar með gott og sjálfsagt. Aðalatriðið er hins vegar að þessar reglur bæta engu sérstöku við. Setning þeirra er bara sýndarmennska, viðleitni núverandi stjórnarforystu til að sýnast betri en aðrir og um leið tilraun til að beina athygli almennings og fjölmiðla frá því að ríkisstjórnin er ekki að ná neinum árangri í þeim málum sem mestu skipta til að bæta stöðu fólks og fyrirtækja og ná þjóðfélaginu upp úr efnahagskreppunni.